Núna má segja að loðnuævintýri vetrarins sé hafið fyrir alvöru og búið að færast nánast upp í landsteina en í fréttum Stöðvar 2 kom fram að tíu skip mokuðu upp úr loðnutorfunni skammt undan Jökulsárlóni. Þau höfðu landsýn á tignarlegan Öræfajökul, eins og sást á myndum sem kokkurinn á Ásgrími Halldórssyni, Guðmundur Borgar, tók.

Frá útgerðinni á Hornafirði fengust þær upplýsingar að loðnan væri góð og falleg og að það styttist í að hún komist í sitt verðmætasta form. Það þýðir að vinnslan í landi mun úr þessu færast úr bræðslu og meira yfir í frystingu til manneldis. Hrognafylling loðnunnar virðist þegar orðin nægilega mikil til frystingar fyrir markaði Austur-Evrópu og stutt í að hún nálgist kröfur Japansmarkaðar.
Langhæsta verðið fæst þó fyrir loðnuhrognin en reynslan sýnir að hrognatakan gæti hafist undir lok mánaðarins. Þær útgerðir sem hlutfallslega minnst eiga eftir af kvótanum halda því enn að sér höndum með að hefja lokasprettinn, vilja eiga nóg eftir fyrir verðmætustu veiðina, fari svo að kvótinn verði skertur.
Endanleg niðurstaða um aflaheimildir ræðst hins vegar af yfirstandandi loðnumælingum hafrannsóknaskipsins Árna Friðrikssonar á Vestfjarðamiðum, en hér má sjá siglingaferil skipsins.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2.
Hér má sjá frétt með viðtali við forstjóra Hafrannsóknastofnunar um yfirvofandi kvótaskerðingu í loðnunni: