Innlent

Biðja Ís­lendinga í Úkraínu að láta vita af sér

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Úkraínskir hermenn á heræfingu.
Úkraínskir hermenn á heræfingu. AP/Andrew Marienko

Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins hvetur fólk sem hyggur á ferðalög til Úkraínu að kynna sér vel ferðaviðvaranir áður en haldið er af stað í ferðalagið. Þá eru Íslendingar í Úkraínu hvattir til þess að láta ráðuneytið vita af sér.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu en mikið óvissuástand er nú í Úkraínu vegna mögulegrar innrásar Rússa í landið. Fyrr í kvöld var greint frá því að bandarísk stjórnvöld teldu Rússa nú vera með nógu mikinn herafla á landamærum Rússlands og Úkraínu til þess að ráðast af fullum krafti inn í landið. Telja Bandaríkjamenn að innrás gæti hafist með tveggja daga loftárásum sem gætu gert ferðalög frá Úkraínu afar erfið fyrir almenna borgara.

„Utanríkisráðuneytið gefur jafnan ekki út ferðaviðvaranir vegna ferðalaga til einstakra ríkja en bendir þess í stað á viðvaranir utanríkisráðuneyta Norðurlanda, sem í flestum eru með starfsemi á viðkomandi stöðum. Íslenskir ríkisborgarar í Úkraínu hvattir til að láta borgaraþjónustuna vita af sér með tölvupósti, hjalp@utn.is. Í neyðartilfellum er hægt að hafa samband við borgaraþjónustuna í síma +354 545-0112,“ segir í tilkynningu utanríkisráðuneytisins.

Hér má finna tengla á vefsíður utanríkisráðuneyta Norðurlanda en fólki er einnig bent á snjallforritið Rejseklar þar sem hægt er að fá tilkynningar um breytingar á ferðaviðvörunum danskra stjórnvalda.


Tengdar fréttir

Hvetja borgara sína í Úkraínu til að koma sér burt

Bandarísk stjórnvöld hvetja nú bandaríska ríkisborgara í Úkraínu til þess að yfirgefa landið hið snarasta, helst innan 48 klukkustunda. Bandaríkin telja Rússa nú fullbúna til innrásar í Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×