Í aðsendri grein sem Jódís birtir á Vísi í dag segir hún að mikil umræða hafi skapast um skotvopnaeign almennings undanfarin ár, til að mynda eftir fjölda skotárása í bandarískum háskólum. Nú hafa fréttir af skotárásum færst nær.
„Hér hefur skotárásum fjölgað ískyggilega síðustu misseri, Rauðagerðismálið, skotárás á Egilsstöðum og tvær skotárásir í Reykjavík síðustu vikuna vekja okkur ugg,“ segir Jódís í greininni.
Nú síðast í nótt var skotárás í miðborg Reykjavíkur þar sem íslenskur karlmaður á þrítugsaldri var skotinn í brjóstið. Hann var fluttur á sjúkrahús og er kominn úr bráðri hættu en þrír voru handteknir eftir umfangsmiklar aðgerðir sérsveitar.
Sjálf kveðst hún vera skotvopnaeigandi og segir skotvopn ekki í eðli sínum hættuleg en tryggja þurfi öryggi. Þá að það hafi verið meðal hennar fyrstu verka eftir að hún settist á þing að hefja undirbúning að frumvarpi um endurskoðun skotvopnalaga.
„Það hefur verið mín tilfinning lengi að mikið sé af óskráðum skotvopnum í landinu en áhugavert er að ekki ber saman skoðun lögreglu og almennings um hversu algengt sé að skotvopn séu óskráð í landinu,“ segir Jódís.
Hún hafi þó eftir samtal við Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra ákveðið að leggja ekki fram umrætt frumvarp þar sem stjórnarfrumvarp um endurskoðun skotvopnalaga væri í farvatninu.
„Ég mun hins vegar halda málinu vakandi og fylgja því eftir inni á þingi þar sem alvarleiki málsins er með þeim hætti að við getum ekki og megum ekki fljóta sofandi að feigðarósi,“ segir Jódís.
„Það verður aldrei hægt að koma að fullu í veg fyrir skotárásir en með ábyrgri löggjöf á átaki í eftirliti og umsýslu má hins vegar draga úr líkum á misnotkun skotvopna og þannig bjarga mannslífum.“