Íslenski boltinn

Ingi býður sig ekki aftur fram og er ósáttur við gagnrýnina sem stjórn KSÍ fékk

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þann 26. febrúar kemur í ljós hverjir munu sitja í stjórn KSÍ næstu tvö árin.
Þann 26. febrúar kemur í ljós hverjir munu sitja í stjórn KSÍ næstu tvö árin. vísir/vilhelm

Ingi Sigurðsson gefur ekki áfram kost á sér í stjórn KSÍ. Ástæða ákvörðunar hans er atburðarrásin síðsumars í fyrra sem leiddi til þess að stjórn sambandsins sagði af sér.

Ingi hefur setið í stjórn KSÍ undanfarin fjögur ár en hefur ákveðið að láta staðar numið eins og fram kemur í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í dag. Ársþing KSÍ fer fram 26. febrúar en þar verður kosið í stjórn sambandsins. Þá berjast þau Vanda Sigurgeirsdóttir og Sævar Pétursson berjast um stöðu formanns KSÍ.

Þrátt fyrir að Ingi bjóði sig ekki fram til áframhaldandi stjórnarsetu segir hann ekkert til í því að hann sé að yfirgefa knattspyrnuhreyfinguna.

Ástæða þess að hann ætlar að hætta í stjórninni er atburðarrásin undir lok síðasta sumar þar sem formaður og stjórn KSÍ sögðu af sér vegna ásakana um að hafa hylmt yfir með meintum brotum leikmanna karlalandsliðsins.

Ingi er ekki sáttur við þær ásakanir sem komu frá aðilum innan knattspyrnuhreyfingarinnar, sem hann segir að þeir hafi varpað fram án þess að kynna sér málin. Þá segist hann vera verulega ósáttur við að engin viðbrögð hafi komið frá þeim sem gengu hvað harðast fram í gagnrýni sinni né öðrum innan hreyfingarinnar eftir að skýrsla úttektarnefndar ÍSÍ var birt. Í henni var farið yfir áðurnefnda atburðarrás og ábyrgð KSÍ.

Yfirlýsing Inga

Síðastliðin 4 ár eða frá því í fe­brú­ar 2018, hef­ur und­ir­ritaður setið í stjórn KSÍ. Á þeim tíma hef ég setið í mann­virkja­nefnd, dóm­ara­nefnd og fjár­hags- og end­ur­skoðun­ar­nefnd sam­bands­ins auk tveggja starfs­hópa á veg­um sam­bands­ins. Þess­um störf­um hef ég sinnt af áhuga og alúð og leit­ast við að leggja mig fram fyr­ir hreyf­ing­una í heild sinni.

Ég hef hins veg­ar, þrátt fyr­ir brenn­andi áhuga á mál­efn­um knatt­spyrnu­hreyf­ing­ar­inn­ar, ákveðið að óska ekki eft­ir áfram­hald­andi stjórn­ar­setu á kom­andi ársþingi knatt­spyrnu­sam­bands­ins þann 26. fe­brú­ar n.k.

Tal um að ég sé að segja skilið við hreyf­ing­una með þess­ari ákvörðun minni er eng­an veg­inn rétt, og slíku tali visa ég til föður­hús­anna.

Ástæða ákvörðunar minn­ar er sú at­b­urðarrás sem varð í lok sum­ars og leiddi til þess að stjórn KSÍ sagði af sér. Í aðdrag­anda þess komu fram aðilar inn­an hreyf­ing­ar­inn­ar sem höfðu mjög hátt, kölluðu eft­ir ýmsu og full­yrtu margt án þess að kynna sér mál­in. Fyr­ir nokkru var birt skýrsla út­tekt­ar­nefnd­ar ÍSÍ þar sem m.a. er farið yfir at­b­urðarás­ina sem leiddi til af­sagn­ar for­manns og síðan stjórn­ar KSÍ. Hvorki hafa komið viðbrögð við skýrsl­unni frá þeim aðilum sem hæst höfðu né öðrum inn­an hreyf­ing­ar­inn­ar og við það er ég veru­lega ósátt­ur.

Framund­an er ársþing knatt­spyrnu­sam­bands­ins þar sem er mik­il­vægt að ræða þessi mál.

Með knatt­spyrnu­kveðju, 

Ingi Sig­urðsson




Fleiri fréttir

Sjá meira


×