Eftir fannfergið á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu er enn þungfært um margar íbúðagötur í borginni enda í forgangi að halda meginleiðum greiðum. Menn á her vinnuvéla hafa nánast unnið myrkrana á milli við að skafa burt snóinn og hafa vart undan.
Allir myndu auðvitað vilja láta moka götuna hjá sér strax. En gatnakerfið í Reykjavík er nú bara tólf hundruð kílómetrar. Næstum eins langt og hringvegurinn. Að auki þarf að ryðja 600 kílómetra af stígum.
Gísli Elí Guðnason og hundurinn Dallas voru á fullu að moka húsagötur í dag.
„Þetta er búin að vera þvílík aktíón. Við erum búnir að vera síðustu tvær vikur á mjög löngum vöktum. Við erum að byrja svona um klukkan fjögur á nóttinni og eru að til níu á kvöldin,“ segir Gísli Elí.

Það eru auðvitað allir að bíða eftir því að þeirra gata verið mokuð?
„Já, það er algerlega þannig. Það kemur alltaf að því,“ segir Gísli Elí. Allt fari þetta eftir skipulagi og fólk verði að sýna þolinmæði.
Er langt síðan þú hefur séð svona mikinn snjó á höfuðborgarsvæðinu?
„Ég bara man ekki eftir svona í svo langan tíma. Það hafa alltaf komið skot en ekki í svona langan tíma,“ sagði Gísli Elí og var svo rokinn af stað í moksturinn með hundinum Dallas.
Víða í húsagötum hafa myndast háir hryggir á miðjum götum og bílastæði eru á kafi í snjó. Undanfarna daga hafa margir á höfuðborgarsvæðinu átt í erfiðleikum með að komast út úr bílastæðum sínum eftir ruðninga frá snjóruðningstækjum.
En fjórir ungir strákar í Hlíðunum, þeir Gunnar Ingi, Þorsteinn Jökull, Gunnar Hrafn og Snorri Karl voru með lausnina á því. Þeir bjóða fólki að moka frá bílastæðum og innkeyrslum gegn hóflegri borgun.
„Við sáum vini okkar gera þetta. Þeir voru bara að taka tröppur, svo byrjuðum við að gera aðeins meira,“ segir Gunnlaugur Hrafn.
Gætuð þið verið að þessu frá morgni til kvölds?
„Já ef við nennum því,“ segir Gunnlaugur.
„Svo erum við á æfingum og svona og erum dálítið þreyttir. En okkur er alveg sama, þetta er svo skemmtilegt,“ segir Þorsteinn Jökull og félagar hans taka undir það.

En leggist þið ekki bara eins og steinrotaðir á koddann í kvöld þegar þið eruð búnir að vinna í allan dag?
„Jú, við sofnuðum frekar snemma í gær, um ellefu,“ segir Snorri Karl.
Þeir voru allir sammála um að launin kæmu sér vel. En þeir eru allir að safna fyrir ferð á fótboltaskóla á Spáni næsta sumar nema Gunnar Ingi. Hann sagðist ekki vera að safna fyrir neinu sérstöku.
En þótt launin komi sér vel voru þeir allir sammála um að þakklætið frá viðskiptavinum væri bestu launin.
„Við fórum í eitt hús þar sem einhver níutíu ára gamall kall þurfti að komast. Hann þakkaði okkur vel fyrir og svona sem er mjög gaman,“ segir Þorsteinn Jökull.
Þannig að þetta er þakklátt starf líka?
„Já,“ sögðu hinir harðduglegu mokstursdrengir allir í kór.