Gestirnir í Göppingen skoruðu fyrsta mark leiksins gegn Magdeburg, en það var í eina skiptið sem liðið hafði forystuna. Heimamenn í Magdeburg tóku þá öll völd á vellinum og voru ekki lengi að ná sér í fimm marka forystu. Liðið hélt áfram að þjarma að gestunum og fór að lokum með 11 marka forskot inn í hálfleikinn, staðan 20-9.
Heimamenn gátu því leyft sér að slaka aðeins á í síðari hálfleik. Þrátt fyrir það hleyptu þeir gestunum aldrei nálægt sér og unnu að lokum öruggan 11 marka sigur, 37-26.
Ómar Ingi Magnússon átti sem fyrr flottan leik í liði Magdeburg og skoraði fimm mörk. Gísli þorgeir Kristjánsson fylgdi fast á hæla honum með fjögur mörk, en Janus Daði Smárason gat ekki leikið með Göppingen í kvöld.
Magdeburg situr sem fyrr á toppi þýsku úrvalsdeildarinnar með 38 stig eftir 20 leiki, 15 stigum meira en Göppingen sem situr í sjöunda sæti.
HEIMSIEG! 🔥
— SC Magdeburg (@SCMagdeburg) February 17, 2022
Wir gewinnen 37:26 gegen Frisch Auf! Göppingen! 💪
Danke für eure Unterstützung #gruenrotewand 💚❤️
Spielbericht 👉https://t.co/Beok89dZt2
Spieltagsheft 👉 https://t.co/tpEhSSAPDI#scmhuja #werbung @wobau_magdeburg
📸 Franzi Gora pic.twitter.com/3Cl0F063NI
Þá átti Elvar Örn Jónsson stóran þátt í fjögurra marka sigri Melsungen gegn botnliði Minden, 26-22. Elvar Örn skoraði fimm mörk og gaf aðrar fimm stoðsendingar á liðsfélaga sína.
Arnar Freyr Arnarsson komst ekki á blað fyrir Melsungen í kvöld, en liðið situr í sjötta sæti deildarinnar með 24 stig eftir 20 leiki.