Síðustu daga hefur starfsmönnum spítalans í einangrun fjölgað ansi ört. Þeir eru nú 432 sem komast ekki í vinnu vegna þess að þeir eru smitaðir af Covid.
Á spítalanum starfa um 6.700 manns og því eru um sex til sjö prósent allra starfsmanna í einangrun.
Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítala, segir ekki útilokað að kalla þurfi einkennalaust starfsfólk úr einangrun til vinnu bráðlega.
„Það er náttúrulega allt rætt en eins og við höfum sagt þá erum við náttúrulega bæði að reyna að forðast það út frá hagsmunum okkar sjúklinga, að við erum að verja þá. Það er náttúrulega viðkvæmur hópur og við erum að verja þá fyrir smiti. Svo er þetta út frá bara starfsmannaverndarsjónarmiðum líka,“ segir Sigríður.
Ekki hafi þurft að grípa til þess úrræðis enn sem komið er.
„Við höfum ekki gert það nei og erum að vona að til þess komi ekki en við verðum bara að sjá hverju fram vindur í þessu,“ segir Sigríður.
Ekki hægt að taka endalausar aukavaktir
Vandinn hefur hingað til verið leystur með aukavöktum starfsfólks.
„Það er í raun og veru okkar helsta leið að fara bara fram á viðbótarvinnuframlag frá okkar fólki, sem er að taka aukavaktir,“ segir Sigríður.
Það fyrirkomulag gangi þó ekki endalaust.
„Fólk er orðið býsna þreytt og gerir þetta nú bara svona af sinni faglegu skyldurækni. En það er vissulega mikið álag á fólki og það orðið langþreytt þannig það er ekkert eftirsóknarvert hjá fólki að bæta við sig vinnu,“ segir Sigríður.
Í hádegisfréttum Bylgjunnar var farið rangt með tölfræði og hlutfall þeirra starfsmanna sem eru í einangrun. Hið rétta er sem segir hér að ofan að það eru tæplega sjö prósent starfsmanna spítalans sem eru frá vinnu og í einangrun.