Fótbolti

KA og FH skildu jöfn í Lengjubikarnum

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
KA gerði jafntefli við FH í lengjubikarnum í dag
KA gerði jafntefli við FH í lengjubikarnum í dag Vísir/Hulda Margrét

KA og FH áttust við í Boganum á Akureyri í dag í Lengjubikar karla. KA komst yfir snemma í síðari hálfleik en FH tókst að jafna nokkrum mínútum fyrir leikslok.

Bæði liðin höfðu unnið fyrsta leik sinn í Lengjubikarnum á þessu tímabili. FH Vann Selfoss 2-0 en KA vann fínan sigur á Grindavík 0-2. Bæði lið því með þrjú stig fyrir leik.

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en þó fannst undirrituðum Norðanmenn líklegri til þess að skora. Það gerðist þó ekki og liðin gengu til hálfleiks í stöðunni 0-0.

Það voru KA sem skoruðu fyrsta markið á 57. mínútu. Daníel Hafsteinsson átti þá góðan sprett eftir að KA hafði unnið boltann á miðjunni. Hann fann svo Ásgeir Sigurgeirsson hægra megin við sig á fullkomnum tímapunkti og Ásgeir gerði engin mistök í afgreiðslunni. 1-0, og KA í fínum málum.

Fimleikafélagið jafnaði svo leikinn á 84. mínútu. Jónatan Ingi tók þá hornspyrnu og KA tókst ekki að skalla frá og boltinn endaði hjá Kristni Frey Sigurðssyni sem hélt boltanum á lofti tvisvar í teikgnum og hamraði boltann svo upp í vinkilinn. Frábært mark, 1-1.

Leiknum fjaraði svo út þó svo að FH hafi nokkrum sinnum gert sig líklega í lokin. Lokatölur 1-1 og bæði liðin með fjögur stig eftir tvo leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×