Gul veðurviðvörun var í gildi á öllu landinu frá seinnihluta morgundagsins en liturinn hefur nú verið uppfærður í appelsínugulan fyrir allt landið.
Seinnipart morgundagsins eru gular viðvaranir í gildi fyrir allt landið fyrir utan Vestfirði, Norðurland eystra, Austurland og Austfirði.
Þegar líða fer á kvöldið taka appelsínugular viðvaranir við á öllu landinu.
Reiknað er með suðaustan stormi eða roki, 20-28 m/s. Gera ráð fyrir talsverðri rigningu eða snjókomu. Snjórinn getur valdið ófærð á götum. Rigning og leysing getur valdið vatnselg og því þarf að reyna að tryggja að vatn komist í fráveitukerfi og til að forðast vatnstjón.
Útlit er fyrir truflanir á samgöngum. Líkur á foktjóni og er fólki ráðlagt að ganga frá lausum munum. Verktökum er bent á að ganga vel frá framkvæmdasvæðum að því er segir á vef Veðurstofunnar.
Viðvaranirnar teygja sig yfir á þriðjudagsmorgun en detta út ein af annarri eftir því sem líður á daginn.
Uppfært: Fréttinni hefur verið breytt eftir að appelsínugul viðvörun var einnig sett í gildi fyrir Austfirði.