Samhæfingarmiðstöð almannavarna verður starfrækt frá og með þeim tíma og fram til morguns. Talsverð hætta er á foktjóni auk þess sem samgöngur geta verið erfiðar um tíma, að því er fram kemur í tilkynningu frá ríkislögreglustjóra. Fólk er hvatt til þess að ganga vel frá lausum munum og verktakar beðnir að ganga vel frá framkvæmdasvæðum.
Veðurstofa Íslands hefur fært veðurviðvörun sína upp á rautt fyrir höfuðborgarsvæðið, Suðurland og Faxaflóa í kvöld. Appelsínugular viðvaranir eru annars í gildi á öllu landinu. Veðurfræðingur býst við miklu vatnsskemmdaveðri en annar hvellur gengur svo yfir landið strax í fyrramálið.
Stutt frá síðasta óveðri
Rauðu viðvaranirnar, sem eru þær alvarlegustu í viðvaranakerfi Veðurstofunnar, taka allar gildi klukkan 19 í kvöld, samkvæmt vef Veðurstofunnar. Þær gilda til 22:30 á höfuðborgarsvæðinu, 23 á Suðurlandi og 00:30 á Faxaflóa.
Á höfuðborgarsvæðinu er spáð suðaustan stormi eða roki 20 til 30 m/s. Þá má gera ráð fyrir talsverðri rigningu eða snjókomu og getur snjórinn valdið ófærð á götum. Þá er ekkert ferðaveður á Suðurlandi og Faxaflóa á meðan viðvörunin gildir.
Einungis tvær vikur eru frá því að hættustigi almannavarna var lýst yfir vegna óveðurs um allt land og samhæfingarstöð virkjuð. Almannavarnir geta virkjað þrjú stig í áætlun sinni: Óvissustig, hættustig og svo neyðarstig.
Hægt er að fylgjast með framvindu veðursins á vef Veðurstofu Íslands, vegum og lokunum hjá Vegagerðinni og ölduhæð á vef Vegagerðarinnar.