Sandra er að spila með danska liðinu EH Aalborg og hefur verið að spila mjög vel á þessu tímabili og svo vel að hún er búin að fá samning hjá þýska liðinu Metzingen á næstu leiktíð.
Þetta er fyrri leikurinn við Tyrki á fjórum dögum en sá síðari verður á Ásvöllum á sunnudaginn. Það er búist við miklum fjölda áhorfenda á leikinn í Kastamonu í kvöld.
„Þetta er rosalega spennandi og gaman að fá áhorfendur aftur. Síðustu leikir okkar hafa verið án áhorfenda þannig að þetta verður mjög skemmtilegt,“ sagði Sandra Erlingsdóttir í viðtali við Handknattleikssamband Íslands.
Tyrkir hafa tapað tveimur fyrstu leikjum sínum í riðlinum og sitja í botnsætinu. Sandra er ekki á því að þetta sé skyldusigur.
„Þetta er mjög stórt verkefni og við þurfum klárlega að mæta alveg hundrað prósent til leiks til að eiga möguleika á sigri,“ sagði Sandra.
„Þær spila á öðruvísi tempói en við erum vanar. Þær eru mjög agressífar í vörn og við þurfum að passa að láta þær ekki vera að brjóta á okkur allan leikinn og þurfum að halda boltanum gangandi,“ sagði Sandra.
Hverjar eru áherslur íslensku stelpnanna í þessum leik í kvöld?
„Við ætlum að byrja á því að mæta hundrað prósent til leiks. Byrjað á því að spila góða vörn og keyra aðeins á þær því þær eru svolítið hægar til baka. Halda boltanum gangandi í sókninni. Þá mun vonandi koma sigur,“ sagði Sandra.
Það má sjá allt viðtalið við hana hér fyrir ofan.