Í fréttum Stöðvar 2 var sent beint út frá Akranesi þar sem verið var að landa um tvöþúsund tonnum úr Víkingi AK. Hrognafylling loðnunnar er orðin það góð að hjá Brimi á Akranesi er byrjað að vinna úr henni kavíar. Það þýðir að farmur Víkings er sennilega tvisvar til þrisvar sinnum verðmætari en hann hefði verið fyrir 2-3 vikum þegar loðnan hefði farið í bræðslu.
Búast má við að hrognavinnsla fari núna á fullt í öllum loðnuvinnslum landsins. Bæði er veitt og unnið í kappi við tímann til að ná sem mestri loðnu áður en sjálf hrygningin hefst.
Drónamyndir frá Birni Steinbekk sýndu loðnuskipin að veiðum undan suðurströndinni í síðasta mánuði. Til lands mátti sjá Eyjafjallajökul, Mýrdalsjökul og Dyrhólaey.
Íslenski loðnuflotinn hefur meira og minna veitt upp úr þessari sömu loðnugöngu í heilan mánuð eftir að hún kom upp á landgrunnið suðaustanlands snemma í febrúar. Flotinn hefur síðan fylgt loðnugöngunni vestur með suðurströndinni, fyrir Reykjanes, inn á Faxaflóa, fyrir Snæfellsnes og yfir Breiðafjörð. Í dag voru skipin að veiða úr þessari sömu torfu við Látrabjarg og undan Patreksfirði.

„Nú er hrognatakan komin á fullt og það streyma inn peningar,“ sagði Róbert Hafliðason, skipstjóri á Víkingi, sem var að koma af miðunum við Látrabjarg.
„Næstu dagar skera úr um það hvort kvótinn næst. Það svona syrtir í álinn með það samt.“
-En það er vonandi ekki bara ein loðnuganga, sú sem er við Látrabjarg. Er ekki von á fleiri göngum?
„Jú, það var fiskur í flóanum á sama tíma og við vorum þarna norðurfrá. Og eitthvað er held ég með austurströndinni. En menn fara beint í þetta, eðlilega. Ná hrognunum.“
-Hvað heldurðu að vertíðin geti enst lengi?
„Maður er að vona þrjár vikur í viðbót. Vonandi,“ svaraði Róbert.
Norðmenn eiga hlut í loðnukvótanum en þeirra veiðitímabili lauk í síðustu viku. Þeir náðu hins vegar ekki að klára sinn kvóta. Samkvæmt upplýsingum Matvælaráðuneytisins hyggst ráðherra sjávarútvegsmála, Svandís Svavarsdóttir, endurúthluta þeim kvóta til íslensku skipanna og gæti það gerst með reglugerð á morgun.
Samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins er búist við að þetta geti orðið í kringum fimmtíu þúsund tonn. Náist að veiða þessa viðbót gæti verðmæti þess afla legið á bilinu tveir til þrír milljarðar króna.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: