Handbolti

Sjáðu þrefalda vörslu Einars Baldvins á lokamínútunum í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Einar Baldvin Baldvinsson sýndi frábær tilþrif í lok leiksins í gær.
Einar Baldvin Baldvinsson sýndi frábær tilþrif í lok leiksins í gær. Vísir/Hulda Margrét

Einar Baldvin Baldvinsson, markvörður Gróttu, átti mikinn þátt í því að Gróttuliðið náði stigi á móti Selfossi í Olís deild karla í gærkvöldi.

Grótta og Selfoss gerðu þá 32-32 jafntefli eftir mikinn spennuleik.

Einar Baldvin varði alls fjórtán skot í marki Gróttu í leiknum en það var einkum markvarslan hans á lokamínútunum sem vó þyngst.

Einar varði fimm af síðustu átta skotum Selfyssinga og var því með 63 prósent markvörslu á síðustu sjö mínútum leiksins.

Það er þó ein tilþrif sem standa ofar öllum öðrum en það var þegar Einar Baldvin varði þrjú skot Selfyssinga í röð á aðeins nokkrum sekúndum. Einar Baldvin þekkir reyndar ágætlega til í herbúðum Selfyssinga enda lék hann um tíma með liðinu.

Fyrst varði Einar frá nafna sínum Einari Sverrissyni, þá frá Atla Ævari Ingólfssyni á línunni og loks frá Richard Sæþóri Sigurðssyni á línunni.

Einar gat vissulega verið reiður út í liðfélaga sína að missa af tveimur fráköstum í röð en þeir honum jafnframt þakklátir fyrir þessa frábæru markvörslu á úrslitastundu.

Einar varði alls átta skot í seinni hálfleiknum þar af var eitt þeirra víti. Hann átti því mikinn þátt í þessu stigi í gær.

Hér fyrir neðan má sjá þessa þreföldu vörslu Einars Baldvins á lokamínútunum í gær.

Klippa: Þreföld markvarsla Einars Baldvins



Fleiri fréttir

Sjá meira


×