Veður

Kröpp lægð gengur yfir austan­vert landið

Atli Ísleifsson skrifar
Seinnipartinn verður lægðin komin norður fyrir land og þá snýst í suðvestan með éljum og kólnandi veðri.
Seinnipartinn verður lægðin komin norður fyrir land og þá snýst í suðvestan með éljum og kólnandi veðri. Vísir/RAX

Kröpp lægð gengur nú yfir austanvert landið og veldur hún suðaustan hvassviðri eða stormi með rigningu austantil á landinu fram eftir morgni. Mun hægari vindur og úrkomuminna er í öðrum landshlutum.

Hiti verður á bilinu núll til sex stig í dag að því er segir á vef Veðurstofunnar. Gul viðvörun er í gildi fyrir Austfirði til klukkan 11.

„Seinnipartinn verður lægðin komin norður fyrir land og þá snýst í suðvestan 8-15 m/s með éljum og kólnandi veðri, en styttir upp á Norðaustur- og Austurlandi.

Á morgun ganga svo næstu skil inn á land. Víða allhvöss suðaustan- og austanátt og rigning eða slydda, og talsverð rigning á Suðausturlandi, en snjókoma með köflum norðvestantil fram eftir degi. Á Norðausturlandi verður hins vegar þurrt að mestu og yfirleitt háskýjað. Hlýnar aftur, hiti 2 til 8 síðdegis,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Spákortið fyrir klukkan 14.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag: Gengur í suðaustan og austan 10-18 m/s. Rigning eða slydda, og talsverð úrkoma SA-lands, en snjókoma með köflum NV-til fram eftir degi. Úrkomulítið á NA-landi. Hlýnandi, hiti 2 til 8 síðdegis og dregur þá úr vindi V-lands.

Á föstudag: Suðaustan og sunnan 10-18 og rigning eða skúrir, og talsverð rigning SA-til fram eftir degi, en úrkomulítið á N-landi. Hægari um kvöldið. Hiti 4 til 11 stig.

Á laugardag: Sunnan 8-13 og él, en léttir til á N- og A-landi. Kólnandi, hiti um og yfir frostmarki seinnipartinn.

Á sunnudag: Austlæg eða breytileg átt 3-10 og dálitlar skúrir eða él, en bjart með köflum fyrir norðan. Hiti 0 til 5 stig.

Á mánudag: Vaxandi suðaustanátt og fer að rigna síðdegis, en þurrt að kalla á N- og A-landi. Hlýnar í veðri.

Á þriðjudag: Útlit fyrir suðvestanátt með éljum, en bjartviðri um landið NA-vert. Kólnar smám saman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×