Fyrstu viðvaranir taka gildi á Suðurlandi og við Faxaflóa klukkan þrjú í nótt vegna suðaustan hvassviðris eða storms og snjókomu. Búast má við suðaustan 18-25 metrum á sekúndu, snjókomu með skafrenningi og lélegu skyggni. Veðrið lægir þegar líða tekur á kvöldið.
Viðvaranirnar taka gildi á höfuðborgarsvæðinu klukkan fjögur í nótt. Búast má við 13-20 metrum á sekúndu á svæðinu og éljagangi eða snjókomu með skafrenningi og takmörkuðu skyggni.
Við Breiðafjörð taka viðvaranir gildi klukkan fimm í nótt en klukkan sex á Vestfjörðum. Á Ströndum og Norðurlandi vestra taka þær gildi klukkan sjö og á Norðurlandi eystra klukkan níu í fyrramálið. Á Austurlandi að Glettingi taka þær gildi klukkan níu í fyrramálið og sama má segja á Austfjörðum.
Viðvaranirnar taka þá gildi á Suðausturlandi klukkan fimm í nótt og klukkan fjögur í nótt á Miðhálendinu. Allar viðvaranir gilda til miðnættis á morgun og einkennist veðrið af lélegum akstursskilyrðum og hvassviðri.