Þetta kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu hagdeildar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar en þar segir að meðalsölutími íbúða hafi þó lengst nokkuð á höfuðborgarsvæðinu í byrjun árs miðað við mánuðina á undan. Í janúar var meðalsölutími íbúða á svæðinu 43,9 dagar samanborið við 40,8 daga í desember og 36,8 daga í október.
Eftirspurnarþrýstingur er enn nokkur á íbúðamarkaði en fram kemur í skýrslunni að áhrif 0,75 prósentustiga stýrivaxtahækkana í fyrri hluta febrúar muni ekki koma fram í opinberum tölum strax. Enn eigi því eftir að koma í ljós hvort þær hækkanir muni draga úr eftirspurn.
Samkvæmt vísitölu paraðra viðskipta nam 12 mánaða hækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu að jafnaði um 21,9 prósentum í janúar en þar af hækkaði sérbýli um 27,4 prósent og fjölbýli um 21,5 prósent.
Kaup og sala á íbúðarhúsnæði dregist saman
Viðskipti með íbúðarhúsnæði hefur hins vegar dregist verulega saman milli mánaða og voru 724 talsins á landinu öllu í janúar. Það er um 32 prósentum minna en í desember. Þó kemur fram í tilkynningunni að sé horft á árstíðarleiðréttar tölur hafi samdrátturinn verið mun minni, eða um 11,2 prósent.
Framboð íbúða til sölu hefur þá haldist nokkuð stöðugt undanfarna mánuði eftir mikinn samdrátt undanfarin tvö ár. Í byrjun marsmánaðar voru 983 íbúðir til sölu á landinu öllu samanborið við 1.017 í byrjun febrúar. Í lok febrúar fór framboðið í fyrsta sinn undir 1.000 íbúðir en í mars í fyrra fór það í fyrsta sinn niður fyrir 2.000 íbúðir.
Leiguverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði þá um 1,1 prósent milli mánaða miðað við vísitölu leiguverðs í janúar. Leiguverðið er þá um 31,2 prósentum hærra en það var árið 2015 á höfuðborgarsvæðinu ef miðað er við fast verðlag. Þá lækkaði hlutfalli leigjenda í vanskilum töluvert á síðast ári en það var um 5,7 prósent samanborið við 8,4 prósent árið 2020.