Lögreglan stöðvaði fyrr í dag ökumann í Hlíðunum en maðurinn reyndist vera undir áhrifum fíkniefna við akstur. Þegar lögregla leitaði í bíl mannsins fannst skotvopn, skothelt vesti og kylfa.
Ökumaðurinn og farþegi hans voru handtekin og vistuð í fangaklefa að því er kemur fram í dagbók lögreglu.
Meðal annarra verkefna lögreglu var þjófnaður og innbrot auk þess sem tilkynnt var um krakka að stökkva milli skúra í Hafnarfirði. Þegar lögregla mætti á staðinn var þó ekkert að sjá.