Handbolti

Ómar Ingi markahæstur í jafntefli | Viktor Gísli lokaði búrinu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon átti flottan leik í kvöld.
Ómar Ingi Magnússon átti flottan leik í kvöld. Getty/Uwe Anspach

Ómar Ingi Magnússon var markahæsti maður vallarins er Magdeburg og Sporting skildu jöfn í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í handbolta í kvöld, 29-29. Þá átti Viktor Gísli Hallgrímsson frábæran leik í marki GOG er liðið vann tveggja marka sigur gegn Bidasoa Irun.

Heimamenn í Sporting höfðu yfirhöndina gegn Íslendingaliði Magdburg í fyrri hálfleik og leiddu með þremur mörkum þegar gengið var til búningsherbergja.

Gestirnir í Magdeburg voru hins vega fljótir að jafna metina í síðari hálfleik og mikið jafnræði var með liðunum það sem eftir lifði leiks. Hvorugu liðinu tókst að slíta sig frá andstæðingum sínum og niðurstaðan varð jafntefli, 29-29.

Ómar Ingi Magnússon var sem fyrr segir markahæsti maður vallarins, en hann skoraði átta mörk fyrir Magdeburg og gaf auk þess þrjár stoðsendingar. Gísli Þorgeir Kristjánsson komst ekki á blað.

Magdeburg og Sporting mætast á nýjan leik í Þýskalandi að viku liðinni og þá kemur í ljós hvort liðið fer áfram í átta liða úrslit.

Á sama tíma mættust Bidasoa Irun og GOG á Spáni þar sem Viktor Gísli Hallgrímsson var í stuði í marki GOG. Viktor varði 21 bolta, eða tæplega 45 prósent af þeim skotum sem hann fékk á sig.

Viktor og félagar unnu leikinn með tveggja marka mun, 30-28, og eru því í góðri stöðu fyrir heimaleikinn sem fer fram að viku liðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×