Fréttastofa hefur reynt án árangurs að ná í Sigurð, bæði í gær og í dag. Þá fór hann undan í flæmingi eftir ríkisstjórnarfund í morgun og neitaði að ræða við fjölmiðla.
Ragna segir að með þessu sé Sigurður að reyna að stjórna umræðunni.
„Við veltum fyrir okkur, í Ungum jafnaðarmönnum, hvort það sé nóg að það komi fram afsökunarbeiðni eftir að ráðherra er málaður út í horn og þar að auki mætir ekki í viðtöl til að útskýra eða svara spurningum heldur setur fram afsökunarbeiðni á Facebook og reynir að stýra umræðunni á hans forsendum.“
Ragna telur að þetta dugi ekki til og að ekki sé ásættanlegt að sópa málinu undir teppið. Hann þurfi að svara fyrir sig í viðtölum fjölmiðla.
Sjá nánar: Ungir jafnaðarmenn krefjast afsagnar Sigurðar Inga
Ragna furðar sig þá á viðbrögðum Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og setur spurningamerki við að hún kjósi að verja hann. „Forsætisráðherra sagði það að hún vildi ekki draga heilindi hans í efa en samt sem áður hafði aðstoðarmaður Sigurðar Inga sem starfar í umboði hans í rauninni logið til um atburðaráðsina og sagt að þetta væri bull.“
Ungir jafnaðarmenn hafa sagt í yfirlýsingu að Sigurði Inga sé ekki sætt lengur og að hann hafi sett slæmt fordæmi sem sé engum til sóma, allra síst manni í hans stöðu. Honum beri að segja af sér.
Ragna segir líka að ekki verði hjá því komist að setja þetta mál í samhengi við fortíð Framsóknarflokksins.
„Árið 2014 var háð mjög rasísk kosningabarátta í borginni þar sem meðal annars var höfð í frammi orðræða um að ekki ætti að úthluta lóðum undir mosku og það tengt við húsnæðisvanda.“