Guðríður var fædd á Laugarbrekku og var á sínum tíma talin vera víðförlasta kona heims sem uppi var í kringum árið 1000.
Fréttastofu barst ábending um málið frá leiðsögumanni sem var á ferð um svæðið fyrr í dag.
Styttan er afsteypa af styttu Ásmundar Sveinssonar af Guðríði og syni hennar, Snorra Þorfinnssyni. Ber hún nafnið „Fyrsta hvíta móðirin í Ameríku“ og var upphaflega gerð fyrir Heimssýninguna í New York árið 1940. Afsteypunni var komið fyrir á steinstöpli við Laugarbrekku árið 2000 og var það Ólafur Ragnar Grímsson, þáverandi forseti, sem afhjúpaði styttuna. Afsteypur af sömu styttu er einnig að finna í New York, Glaumbæ í Skagafirði og svo á einkabókasafni páfa í Vatikaninu.

Mikil óvirðing
Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar, segist í samtali við fréttastofu vera í algeru sjokki vegna málsins en hann hefur átt sæti í Guðríðar- og Laugarbrekkuhópnum sem hefur haldið minningu Guðríðar á lofti.
„Mér finnst þetta svo mikil óvirðing við það sem var verið að gera á þessum tímamótum árið 2000, að minnast Guðríðar. Maður er bara dapur þegar svona gerist.“

Hann segir líklegt að ekki séu meira en einn eða tveir sólarhringar síðan styttunni var stolið. „Sárið er hreint. Það myndi ryðga strax. Það virðist sem að menn hafi þarna notast við slípirokk.“
Fyrsta kristna konan til að fæða barn í Ameríku
Guðríður fluttist ung til Grænlands og hélt ásamt eiginmanni sínum í leiðangur til Vínlands og er hún almennt talin vera fyrsta kristna konan sem hafi fætt barn í Ameríku.

Það var Guðríðar- og Laugarbrekkuhópurinn sem stóð að gerð styttunnar en í honum voru Kristinn Jónasson bæjarstjóri Snæfellsbæjar, Skúli Alexandersson heitinn, fyrrverandi alþingismaður, Ragnhildur Sigurðardóttir umhverfisfræðingur og bóndi og Guðrún G. Bergmann rithöfundur og framkvæmdastjóri.
Ekki hefur tekist að ná tali af lögreglunni á Vesturlandi vegna málsins.
