Innlent

Óli Björn varar Lilju við því að svíkja lit

Jakob Bjarnar skrifar
Ekki þarf bókmenntafræðing til að átta sig á því hvert Óli Björn beinir spjótum sínum; ef Lilja hefur sig ekki hæga á hún það á hættu að verða neðanmálsgrein í stjórnmálasögunni.
Ekki þarf bókmenntafræðing til að átta sig á því hvert Óli Björn beinir spjótum sínum; ef Lilja hefur sig ekki hæga á hún það á hættu að verða neðanmálsgrein í stjórnmálasögunni. vísir/vilhelm

Óli Björn Kárason þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins sendir Lilju D. Alfreðsdóttur, varaformanni Framsóknarflokksins eiturpillu í grein sem hann birtir í Mogga dagsins.

Óli Björn talar um að Ísland sé land samsteypuríkisstjórna og forsenda þess að slíkt samstarf gangi sé að traust og trúnaður ríki milli forystumanna flokkanna. Hann segir flókið að mynda slíkar stjórnir þannig að flokkum takist að halda í sín stefnumið, þá gagnvart kjósendum sínum og eðlilegt sé við slíkar aðstæður að stundum mæti mótbyr.

Mikilvægi samstöðunnar

„Eng­in rík­is­stjórn kemst í gegn­um kjör­tíma­bil án þess að vind­ar blási á móti af og til. Í mótvindi reyn­ir á ráðherra og stjórn­ar­liða. Þá reyn­ir á póli­tísk­an karakt­er stjórn­mála­manna – hvort þeir hafa burði til að standa heil­ir að baki ákvörðunum sem þeir tóku þátt í að taka eða hlaupa und­an ábyrgð og reyna að varpa henni á aðra,“ segir Óli Björn.

Skopmyndateiknari Morgunblaðsins dregur upp mynd af Lilju þar sem hún hendir sprengju inn í ríkisstjórnarsamstarfið.skjáskot

Þó hann tali undir rós og nefni engin nöfn ræður samhengi merkingunni og þarf enga bókmenntafræðinga til að lesa hér á milli lína, hvert þingflokksformaðurinn beinir spjótum sínum. Efst á baugi frétta vikunnar sem snúa að stjórnmálunum hafa verið orð Lilju þess efnis að hún hafi verið mótfallin því hvernig staðið var að sölu Íslandsbanka.

Lilja verður neðanmálsgrein og léttavigt sjái hún ekki að sér

Orð Lilju um bankasöluna eru umfjöllunarefni Ívars, skopmyndateiknara Morgunblaðsins í dag en sjá má mynd af Lilju þar sem hún beinlínis hendir sprengju í ríkisstjórnarsamstarfið.

Grein Óla Björns í Mogga dagsins. Ekkert fer á milli mála hvert hann beinir orðum sínum þó ekki séu nein nöfn nefnd.skjáskot

Óli Björn varar Lilju, sem þó er aldrei nefnd í grein þingflokksformannsins, við og vænir hana óbeint um lýðskrum í niðurlagi greinar sinnar:

„Slík­ir stjórn­mála­menn verða yf­ir­leitt ekki annað en létta­vigt – marka aldrei spor í sög­una – verða í besta falli til­efni fyr­ir neðan­máls­grein í stjórn­mála­sög­unni. Þeirra verður getið í sömu neðan­máls­grein sem grein­ir frá þeim sem hæst hrópa með stór­yrðum, sví­v­irðing­um og dóm­um um menn og mál­efni,“ segir Óli Björn.


Tengdar fréttir

Katrín kannast ekkert við andstöðu Lilju

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kannast ekki við að Lilja D. Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra hafi viljað færa til bókar andstöðu sína við fyrirkomulag útboðs á hlutum í Íslandsbanka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×