Körfubolti

Körfu­bolta­konan sem var skotin tíu sinnum í partíi ætlar að spila næsta vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aaliyah Gayles í myndatöku á vegum USC skólans fyrir skotárásina afdrifaríku.
Aaliyah Gayles í myndatöku á vegum USC skólans fyrir skotárásina afdrifaríku. Instagram/uscwbb

Körfuboltakonan Aaliyah Gayles ætlar ekki að láta það stoppa sig að hafa orðið fyrir tíu byssuskotum fyrr í þessum mánuði því hún hefur samþykkt að spila með USC-skólanum í bandaríska háskólakörfuboltanum á næsta tímabili.

USC, eða University of Southern California, tilkynnti það í gær að Gayles hafði ákveðið að spila með skólanum næsta vetur.

Gayles hefur verið eftirsóttur leikmaður í nokkurn tíma en allt hefði getað endað á hryllilegan hátt þegar hún varð fyrir kúlnahríð í partíi í Las Vegas 16. apríl síðastliðinn.

Gayles var ein af fjórum í teitinu sem urðu fyrir skotum en öll lifðu þau það af. Gayles þurfti að gangast undir þrjár skurðaðgerðir á höndum og fótum vegna skotsáranna.

Gayles spilaði vel með gagnfræðiskólaliði Spring Valley í Las Vegas og var valin í McDonald's All American úrvalsliðið í vetur.

Hún spilaði í Jordan Brand Classic leiknum í Chicago 15. apríl eða daginn áður en hún varð fyrir skotunum. Hún er 175 sm leikstjórnandi sem var með 13,8 stig, 4,9 fráköst, 3,5 stolna bolta og 3,3 stoðsendingar í leik á lokaári sínu.

Áhyggjuefnið er auðvitað hvernig hún kemur út úr þessum meiðslum. Í viðtali við Fox5 sjónvarpsstöðina í Las Vegas sagðist hún vera komin með tilfinningu í höndunum en ekki í fótunum.

Það gæti því farið svo að það taki hana meira en þetta sumar að ná sér góðri af meiðslum sínum en endurkoma hennar mun eflaust fá mikla fjölmiðlaathygli í Bandaríkjunum eftir þessar ótrúlegu kringumstæður sem hún lenti í.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×