Heimavöllurinn hefur verið að bregðast Selfossliðinu síðan þeir tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn en þeir hafa getað treyst á góða frammistöðu í útileikjunum.
Það var mikil spenna í leiknum í Krikanum í gær en gestirnir sýndu enn á ný hversu góðir þeir eru á útivelli.
Selfyssingar voru með frumkvæðið fram eftir leik en misstu leikinn í framlengingu. Það þurfti tvær framlengingar til að skera út um sigurvegara en Selfossliðið var miklu sterkara í seinni framlengingunni og vann fimm marka sigur, 38-33.
Selfossliðið hélt því áfram sigurgöngu sinni á útivöllum en liðið hefur unnið alla sjö útileiki sína í úrslitakeppni frá því í maí 2018.
Síðasta liðið til að vinna heimasigur á móti Selfossi í úrslitakeppni var lið FH í undanúrslitum 2018. FH tryggði sér þá oddaleik með 41-38 sigri í framlengdum fjórða leik liðanna.
Það eru því liðnir rúmir 47 mánuðir (1.444 dagar) frá síðasta tapleik Selfyssinga á útivelli í úrslitakeppni.
Á sama tíma hefur Selfossliðið aftur á móti tapað fjórum leikjum á heimavelli í úrslitakeppni. Þeir steinlágu í heimaleiknum í þessari seríu á móti FH og duttu út í fyrra eftir tap á móti Stjörnunni í seinni leik liðanna í átta liða úrslitum.
Eina tap Selfossliðsins í úrslitaeinvíginu 2019 kom einmitt á heimavelli á móti Haukum. Selfoss tryggði sér titilinn þá með sigri á heimavelli í fjórða leiknum.
Góðu fréttirnar fyrir Selfossliðið er kannski að næsti leikur er einmitt á útivelli því fyrsti leikurinn í undanúrslitaeinvíginu á móti Val er á Hlíðarenda á mánudagskvöldið.
- Síðustu útileikir Selfoss í úrslitakeppni karla í handbolta:
- Kaplakriki 28. apríl 2022: Fimm marka sigur á FH (38-33, tvíframlengt)
- Kaplakriki 22. apríl 2022: Eins marks sigur á FH (28-27)
- Mýrin, Garðabæ 1. júní 2021: Tveggja marka sigur á Stjörnunni (26-24)
- Ásvellir 19. maí 2019: Tveggja marka sigur á Haukum (32-30)
- Ásvellir 14. maí 2019: Fimm marka sigur á Haukum (27-22)
- Hlíðarendi 3. maí 2019: Eins marks sigur á Val (32-31)
- Austurberg 22. apríl 2019: Eins marks sigur á ÍR (29-28)
- Kaplakriki 4. maí 2018: Fjögurra marka tap fyrir FH (38-41, framlengt)