Breytt regluverk um steypu var kynnt á fundi innviðaráðuneytisins og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, HMS, í dag og hafa drög að reglugerð um breytingu á byggingarreglugerð verið birt í samráðsgáttinni.
Fram kemur í tilkynningu á vef HMS að áætla megi að breytingar á regluverkinu geti haft þau áhrif að um 20 til 30 prósenta samdráttur verði á losun gróðurhúsalofttegunda vegna notkunar steypu og um sex prósenta samdráttur á losun vegna byggingariðnaðarins í heild.
Þá segir að helstu breytingarnar felist í sveigjanlegri og markmiðsbundnum ákvæðum sem muni opna fyrir grænar lausnir en áfram verði sömu áherslur á öryggi og gæði.
„Breytingarnar skapa meðal annars hvata til að nota fjölbreyttari samsetningar í steypuíblöndun, nýta mismunandi blöndur fyrir ólíkar aðstæður og endurvinna steinefni. Markmiðið er að lágmarka umhverfisáhrif steypunnar og tryggja endingu hennar með tilheyrandi ávinningi,“ segir í tilkynningunni.
Þannig megi lækka kolefnisspor íslenskra bygginga en byggingarefnin sjálf beri ábyrgð á um 45 prósentum kolefnissporsins.
Fram kemur í tilkynningunni að sérstakur faghópur hafi unnið tillögurnar á breytingunum og hafi fyrstu tillögur verið unnar í samstarfi við sérfræðingana Eyþór Rafn Þórhallsson dósent í iðn- og tæknifræðideild Háskólans í Reykjavík, Einar Einarsson framkvæmdastjóra gæða- og umhverfissviðs og Hornsteins og Guðbjart Einarsson sviðsstjóra bygginga hjá Ríkiseignum.
Í framhaldinu hafi svo verið settur á stofn samráðshópur fagaðila en í þeim hópi áttu sæti Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök iðnaðarins, Verkfræðingafélag Íslands, Arkitektafélag Íslands, Grænni byggð, Verkfræðistofnun Háskóla Íslands og Mannvit.