Handbolti

Einar byrjar atvinnumennskuna sem lærisveinn Guðmundar

Sindri Sverrisson skrifar
Einar Þorsteinn Ólafsson spilar í dönsku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.
Einar Þorsteinn Ólafsson spilar í dönsku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð. vísir/hulda margrét

Handknattleiksmaðurinn efnilegi Einar Þorsteinn Ólafsson fetar í fótspor föður síns, Ólafs Stefánssonar, og heldur í atvinnumennsku í sumar.

Einar hefur skrifað undir samning til tveggja ára við danska félagið Fredericia og verður þar með lærisveinn landsliðsþjálfarans Guðmundar Guðmundssonar sem tekur við liðinu í sumar.

Einar, sem er tvítugur, kemur til félagsins frá uppeldisfélagi sínu Val. Einar á þó eftir að ljúka keppnistímabilinu með Valsmönnum sem leika í kvöld á Selfossi í undanúrslitum Olís-deildarinnar.

„Einar er spennandi leikmaður,“ segir Thomas Renneberg-Larsen, stjórnandi hjá Fredericia, og bætir við:

„Hann er 198 sentímetrar og 91 kíló, góður varnarmaður og afar öflugur í sóknarleiknum sem skytta eða leikstjórnandi. Við teljum að Einar geti þróast mikið við að koma í dönsku deildina og við væntum þess að á komandi leiktíðum muni hann þróast í að verða mikilvægur hlekkur í liði Fredericia.“

Einar byrjar atvinnumannsferilinn þremur árum á undan föður sínum sem fór frá Val til Wuppertal í Þýskalandi árið 1996. Á löngum og glæsilegum atvinnumannsferli sínum lék Ólafur eina leiktíð í Danmörku, með liði sem hét AG Köbenhavn.

„Risastórt tækifæri fyrir mig“

Fredericia endaði í 6. sæti deildakeppninnar í dönsku úrvalsdeildinni en er svo gott sem úr leik í úrslitakeppninni þar sem liðið er án stiga í riðli 2 eftir þrjár umferðir af sex.

„Ég hlakka til að skipta yfir í dönsku deildina sem er mjög sterk. Vonandi get ég haldið áfram að þróast og verða enn betri handboltamaður í atvinnumannafélagi með góðri umgjörð,“ segir Einar í tilkynningu Fredericia.

„Þetta er risastórt tækifæri fyrir mig og ég hlakka til að spila í fullri Thansen-höll, þar sem ég hef heyrt að HK Ultras skapi mikla stemningu. Vonandi get ég stuðlað að því að Fredericia nái árangri á komandi árum og spili um verðlaun,“ sagði Einar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×