Í gærkvöldi birti Hjörleifur Hallgríms Herbertsson skoðanagrein á Akureyri.net með heitið „Sérkennilegt framboð“. Framboðið sem Hjörleifi finnst svona sérkennilegt er Kattaframboðið sem býður sig fram til sveitarstjórnarkosninga á Akureyri.
Brottfluttur spjátrungur
Snorri Ásmundsson er oddviti Kattaframboðsins og bendir Hjörleifur á það að Snorri sé brottfluttur Akureyringur og kallar hann spjátrung.
„Snorri þessi hefur komið fram í fjölmiðlum og talað digurbarkalega og blaðrað um að þetta framboð hans komi a.m.k. 5 manns í bæjarstjórn Akureyrar nú og að auki er hann dubbaður upp sem bæjarstjóraefni. Guð forði mér frá því þar sem mig langar til að búa hér áfram í mínum yndislega, fæðingar- og uppeldisbæ,“ segir Hjörleifur sem sjálfur skipar 22. sæti á lista Flokks fólksins í kosningunum.
Honum finnst það illskiljanlegt að Akureyringar skuli ánetjast „þessu bulli í spjátrungnumׅ Snorra“ þar sem tekjur Snorra séu heldur rýrar.
Vill fordæmingu á níðgreininni
Ásgeir Ólafsson Lie, sem skipar annað sætið á lista Kattaframboðsins, svarar grein Hjörleifs með opnu bréfi sem hann birtir einnig á Akureyri.net. Hann segir Hjörleif níða oddvita Kattaframboðsins.
„Mig langar að spyrja ykkur. Er þetta pólitíkin sem þið standið fyrir og ætlið að stunda þegar þið verðið kosin í bæjarstjórn á Akureyri eða á Alþingi Íslendinga?,“ segir Ásgeir.
Hann skorar á þrjá efstu frambjóðendur Flokks fólksins og þingmann flokksins í Norðausturkjördæmi, Jakob Frímann Magnússon, að koma fram opinberlega og fordæma „níðgrein“ Hjörleifs.
„Ég neita að trúa því að þið viljið standa fyrir svona málflutningi og kosningabaráttu.“
Margir óákveðnir
Níu flokkar eru í framboði á Akureyri og keppast um ellefu bæjarfulltrúasæti. Samkvæmt nýjustu könnun RHA mælist Flokkur fólksins með 11,3% og Kattaframboðið með 7,8% á Akureyri. Mikill fjöldi Akureyringa er þó óákveðinn en 31,3% þeirra sem svöruðu könnun RHA segjast ekki hafa ákveðið sig enn.