Á vef Veðurstofunnar segir í dag verði norðaustan og norðan átta til fimmtán metrar á sekúndu og allvíða snjókoma eða slydda. Þó verður hægari vindur sunnanlands fram eftir degi og skúrir eða él.
„Á vegum norðan- og austanlands má því víða búast við vetraraðstæðum, einkum á fjallvegum. Hiti 0 til 7 stig, mildast sunnantil. Það dregur úr ofankomu í kvöld.
Hægari norðlæg átt á morgun, en strekkingur austast á landinu fram eftir degi. Dálítil él á norðanverðu landinu með hita nálægt frostmarki, en sunnan heiða verður bjart að mestu og hiti 3 til 8 stig yfir daginn, en þar eru þó líkur á einhverjum síðdegisskúrum,“ segir í tilkynningunni.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á föstudag: Norðlæg átt 5-10 m/s, en 10-15 austast á landinu fram eftir degi. Dálítil él á norðanverðu landinu og hiti nálægt frostmarki. Bjart að mestu sunnan heiða með hita 3 til 9 stig yfir daginn, en líkur á stöku síðdegisskúrum.
Á laugardag: Suðaustan og austan 5-13 og rigning með köflum, en lengst af úrkomulítið á Norður- og Austurlandi. Hlýnandi, hiti 2 til 8 stig eftir hádegi.
Á sunnudag: Suðlæg átt 3-10 og súld eða dálítil rigning með köflum, en léttir til um landið norðaustanvert. Hiti 4 til 12 stig.
Á mánudag og þriðjudag: Austlæg átt, skýjað með köflum og lengst af þurrt. Milt í veðri, einkum vestanlands.
Á miðvikudag: Útlit fyrir austlæga átt með vætu á köflum.