Greint var frá því í eftir fund forsvarsmanna flokkanna fjögurra í gærkvöldi að svo mikill samhljómur hafi verið með áherslum fundarmanna í öllum helstu málum, að grundvöllur væri fyrir því að fara í formlegar meirihlutaviðræður.
„Auðvitað þurfa allir að lúffa með eitthvað smá en það var afskaplega lítið sem var. Þetta lítur bara vel út,“ segir Heimir Örn Árnason, oddviti Sjálfstæðisflokksins í samtali við Vísi.
Óákveðið er hvenær næsti fundur verður haldinn, en það verður að sögn Heimis Arnar á næstu dögum. Fulltrúar flokkanna hafi nú það verkefni að setja málefni niður á blað áður en fundað verður aftur.
„Nú erum við með opin skjöl sem við erum að vinna í sameiginlega,“ segir Heimir Örn.
Í tilkynningu sem flokkarnir fjóru sendu út í gær var vísað til þess að flokkarnir væru sammála um að leggja áherslu á „á farsæld barna, barnafjölskyldna, fólks í viðkvæmri stöðu og eldra fólks. Auk þess voru aðilar sammála um að leggja áherslu á umhverfis- og loftslagsmál, mannréttindi og velferð íbúa, öflugt skólastarf sem og metnaðarfull og fagleg skipulagsmál“.

Samanlagt geta þessir flokkar myndað sex fulltrúa meirihluta í bæjarstjórn Akureyrar, þar sem ellefu fulltrúar eiga sæti. Engin eiginlegur meirihluti hefur verið í bæjarstjórn Akureyrar undanfarin tvö ár þar sem allir flokkar mynduðu eins konar samstjórn í september 2020. Það fyrirkomulag tók við af meirihluta L-listans, Framsóknarflokksins og Samfylkingarinnar sem verið hafði við völd frá árinu 2014.
Í nýafstöðnum bæjarstjórnarkosningum hlutu Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur tvo fulltrúa hvor, Miðflokkurinn og Samfylkingin einn hvor.