Ragnhildur Sigurðardóttir og Gísli Örn Bjarkarson eru sauðfjárbændur á bænum. Þau eiga þrjú börn, sem eru mjög dugleg að hjálpa til við í sauðburði. Um 500 fjár eru á bænum.
„Og það dýrmætasta er náttúrulega þessu dásamlegu börn, sem koma og hjálpa til. Þetta er mjög fjölskylduvænt að hafa eitthvað svona, sem skiptir okkur máli og vinna saman í. Svo fær maður náttúrulega góðan mat og það er gaman og gefandi að vera innan um dýr,“ segir Ragnhildur.
Og það hefur gengið vel sauðburður í vor eða?
„Já, sjö, níu, þrettán, já, náttúrulega grænt gras á túnunum og við höfum ekki þurft að fara með eina einustu kind til dýralæknis, ekki í keisaraskurð eða neitt þannig og þetta er að verða búið. Það eru svona 52 eftir og einn gemlingur.“

Björk dóttir hjónanna tók sitt sumarfrí í leikskóla í Reykjavík og í Þjóðleikhúsinu til að koma heim í sauðburð. Hún er einstaklega góð að taka á móti lömbum. Forystuærin Flekka var að bera tveimur lömbum, sem Björk aðstoðaði við.
„Þetta eru tvær gimbrar. Það þarf stundum að hjálpa, það kemur oft fyrir að það sé bara annar fóturinn og þá þarf að sækja hinn og svo getur verið að það komi aftur á bak eða eitthvað annað vesen,“ segir Björk og bætir við að sauðburður og réttir, séu skemmtilegasti tíminn í sveitinni.
