Eftir tímabilið 2020, þar sem Sveindís varð Íslandsmeistari með Breiðabliki, samdi hún við þýska stórliðið Wolfsburg. Hún var hins vegar strax lánuð til Kristianstad og lék með liðinu í sænsku úrvalsdeildinni í fyrra.
Sveindís segir að hún hafi eflaust verið tilbúin að fara beint til Wolfsburg en sér ekki eftir millilendingunni í Kristianstad.
„Já, hefði alveg örugglega verið tilbúin en þetta var geggjað skref þarna á milli. Ég veit ekki hvernig ég væri núna ef ég hefði ekki farið til Svíþjóðar. Þetta hefði verið mjög stórt skref að fara beint frá Íslandi til Þýskalands en það hefði alveg verið hægt,“ sagði Sveindís í samtali við Vísi í síðasta mánuði.
„Ég er mjög ánægð með tímann minn í Svíþjóð og lærði helling. Ég er búin að bæta mig sem leikmann þannig að þetta var eiginlega fullkomið skref.“
Elísabet er núna á sínu fjórtánda tímabili með Kristianstad og hefur gengið í gegnum ýmislegt þar, allt frá því að nánast bjarga félaginu frá gjaldþroti yfir í að koma því í Meistaradeild Evrópu. Sveindís segir að Elísabet sé í miklum metum í Kristianstad.
„Beta er frábær þjálfari og frábær persóna. Ég er mjög ánægð að hafa fengið að kynnast henni og get sagt endalaust um hana. Hún er frábær karakter og hefur hjálpað mér endalaust og er enn að því. Ég er mjög þakklát að hún hafi þjálfað mig. Það gaf mér mikið,“ sagði Sveindís.
„Beta er drottning í Kristianstad og mjög stór fyrir öllum. Hún hefur gert ótrúlega margt fyrir félagið og liggur við bjargað því. Hún hélt Kristianstad uppi á tímabili og núna er þetta stórt félag og geggjað miðað við hvernig það var áður en hún kom.“
Sveindís átti góðu gengi að fagna hjá Kristianstad. Hún var meðal annars valin leikmaður maí-mánaðar í sænsku úrvalsdeildinni og var talin í hópi bestu leikmanna hennar.