Veður

Allt að átján stig um helgina

Eiður Þór Árnason skrifar
Mildara loft kemst að landinu með suðlægari vindáttum á morgun.
Mildara loft kemst að landinu með suðlægari vindáttum á morgun. Vísir/Arnar

Spáð er norðlægri átt, þremur til átta metrum á sekúndu og dálítilli súld norðan- og austanlands fram eftir degi en léttir síðan til. Annars víða bjart og sólríkt veður og ágætlega milt. Stöku síðdegisskúrir syðra. Hiti fjögur til fjórtán stig, hlýjast syðst.

Á morgun er gert ráð fyrir suðaustan fimm til tíu metrum á sekúndu og skýjað með köflum suðvestantil, annars hægri breytileg átt eða hafgolu og víða léttskýjað. Hiti víða tíu til átján stig yfir daginn, en kólnar undir kvöld, fyrst norðaustanlands.

Fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands að á morgun verði vindur suðlægari suðvestantil og mildara loft komist að landinu. Fremur svalt verði um austanvert landið en hlýtt annars staðar.

Það verði afgerandi hvort vindur verði nægur til að halda hafgolunni frá. Að sögn veðurfræðings verður svalara veður þar sem hún nær sér á strik en hins vegar geti orðið aðeins hlýrra þar sem sólar nýtur og hafgolan nær ekki til.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag: Suðaustan 5-10 m/s og skýjað en þurrt sunnan- og vestanlands, en annars hægur vindur og víða léttskýjað. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast á Norðvesturlandi.

Á sunnudag og mánudag: Hæg austlæg eða breytileg átt. Víða léttskýjað eða skýjað á köflum. Hiti víða 12 til 19 stig, en svalara austantil.

Á þriðjudag og miðvikudag: Norðaustlæg eða breytileg átt og skýjað með köflum. Hiti víða 8 til 15 stig að deginum, en svalara í hafgolu.

Á fimmtudag: Útlit fyrir fremur hæga norðlæga átt. Skýjað og svalt fyrir norðan en bjart á köflum syðra og hiti að 16 stigum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×