Handbolti

Níu ís­­lensk mörk í sjö marka sigri Melsun­­gen | Elliði skoraði fimm

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Alexander Petersson skoraði fjögur mörk í dag.
Alexander Petersson skoraði fjögur mörk í dag. Swen Pförtner/Getty Images

Íslendingaliðin Bergischer og Melsungen mættust í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag þar sem gestirnir í Melsungen unnu sjö marka sigur. Lærisveinar Guðjóns Vals Sigurðssonar í Gummersbach unnu svo enn leikinn í B-deildinni.

Gestirnir byrjuðu mun betur en sóknarleikur Bergischer var ekki til staðar í fyrri hálfleik er liðið skoraði aðeins níu mörk gegn 14 hjá Melsungen. Ekki gekk að minnka muninn í síðari hálfleik og lauk leiknum með þægilegum sjö marka sigir Melsungen, 24-31.

Alexander Petersson – sem hefur tilkynnt að hann ætli að leggja skóna á hilluna eftir tímabilið – skoraði fjögur mörk fyrir Melsungen. Arnar Freyr Arnarsson bætti við þremur íslenskum mörkum fyrir gestina. Arnór Þór Gunnarsson skoraði tvö mörk í liði heimamanna.

Melsungen er í 8. sæti með 31 stig í 8. sæti þegar tvær umferðir eru eftir af tímabilinu. Bergischer er í 13. sæti með 25 stig.

Gummersbach lagði Ferndorf með fjórum mörkum á útivelli, lokatölur 28-32. Elliði Snær Vignisson skoraði fimm mörk og lagði upp eitt í liði Gummersbach sem hefur þegar tryggt sér sigur í B-deildinni. Þegar ein umferð er eftir er liðið á toppnum með 60 stig, 11 stigum meira en næsta lið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×