Ný verðlagskönnun ASÍ sýnir að matar- og drykkjarvörur hafa hækkað um allt að 16,6 prósent á síðustu sjö mánuðum. Hækkunin er samkvæmt ASÍ í takt við breytingar á vísitölu neysluverðs á sama tímabili.

Allar átta verslanirnar sem könnunin nær til hækkuðu vöruverð. Mesta verðhækkunin er hjá Heimkaup en minnst hjá Krónunni. Framkvæmdastjóri Krónunnar segir að félagið leiti ýmissa leiða til þess að þurfa ekki að hækka verð um of. Til dæmis með því að finna leiðir til að lækka innkaupakostnað.
„Til dæmis með því að fara í eigin innflutning. Beinan innflutning erlendis frá og reyna þá að fækka þessu milliliðum sem eykur kostnað, fá þá hagkvæmari innkaup og koma því strax út í verðlagið,“ sagði Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar.
Berjast á hæl og hnakka
Þær vörur sem hækka mest í verði samkvæmt könnuninni eru mjólkurvörur, egg og ostur, en hækkunin er á bilinu 8-25 prósent. Hækkun á mjólkurvörum er afleiðing þess að verlagsnefnd búvara, fyrir tilstilli ríkisins, tilkynnti tvær hækkanir nýverið.
„Annars vegar var það 1. desember, þá hækkuðu mjólkurvörur um sirka 3-4 prósent að meðaltali og svo núna 3. apríl þá hækkuðu þær um sirka 4-5 prósent að meðaltali og þetta eru hækkanir sem skila sér beint út til neytenda.“
Já hækkanir sem nefnd á vegum ríkisins boðar og að sögn Ástu eitthvað sem markaðurinn getur ekkert gert í. Þá er það kjötið sem er sá vöruflokkur hjá Krónunni sem hækkar mest.
„Kjötið hækkar töluvert, hvers vegna er það? Við sjáum það helst í fuglakjötinu, kjúkling, kalkúni, eggjum og svínakjötinu og það er vegna hækkunar á fóðri. Alheimshækkun.“
Verðhækkanir á pakkningum, orku og flutningum vara til landsins hafa áhrif á hækkanir.
„En við erum að berjast á hæl og hnakka alla daga við því að sporna gegn þessum verðhækkunum af því að við erum í raun síðasti hlekkurinn í aðfangakeðjunni og það er okkar hlutverk og við lítum á það sem okkar skyldu að reyna að sporna við þessum verðhækkunum sem á okkur dynja.“