Handbolti

Ómar Ingi í liði ársins annað árið í röð

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon átti frábært tímabil er Magdeburg varð þýskur meistari í handbolta.
Ómar Ingi Magnússon átti frábært tímabil er Magdeburg varð þýskur meistari í handbolta. Ronny Hartmann/picture alliance via Getty Images

Selfyssingurinn Ómar Ingi Magnússon er í liði ársins í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta annað árið í röð. Ómar varð þýskur meistari með liði sínu, Magdeburg.

Ásamt því var Ómar hársbreidd frá því að verja markakóngstitil sinn í deildinni, en hann skoraði 237 mörk á tímabilinu. Aðeins Hans Lindberg skorðaði fleiri mörk á tímabilinu, eða 242 mörk. Þá var Ómar einnig iðinn við að leggja upp fyrir liðsfélaga sína, en hann var þriðji stoðsendingahæsti leikmaður deildarinnar með 124 stykki.

Ómar er eini Íslendingurinn sem kemst í lið ársins, og það sem meira er þá er hann eini leikmaðurinn úr meistaraliði Magdeburg sem kemst í liðið. Notast var við hina ýmsu tölfræðiþætti eftir hvern leik fyrir sig til að ákvarða lið ársins.

Flensburg-Handewitt, lið Teits Arnar Einarssonar, á flesta fulltrúa í liðinu, eða fjóra talsins. Það eru þeir Kevin Möller, Hampus Wanne, Johannes Golla og Jim Gottfridson. Simon Jeppsson úr liði HC Erlangen er í stöðu vinstri skyttu og áðurnefndur Hans Lindberg er sjöundi maður liðsins í hægra horni.

Þá gefst aðdáendum þýsku deildarinnar nú til boða að kjósa besta leikmann tímabilsins þar sem allir sjö leikmenn liðs ársins eru tilnefndir. Kosningunni lýkur á miðnætti næstkomandi sunnudag, en hægt er að kjósa með því að smella hér.

Ómar Ingi Magnússon er eini leikmaður þýsku meistaranna sem kemst í lið ársins.liquimoly-hbl.de



Fleiri fréttir

Sjá meira


×