Innlent

Kristinn skipaður dómari við Land­rétt

Atli Ísleifsson skrifar
Kristinn Halldórsson hefur gegnt stöðu dómstjóra við Héraðsdóm Reykjaness.
Kristinn Halldórsson hefur gegnt stöðu dómstjóra við Héraðsdóm Reykjaness. Vísir/Vilhelm

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hefur ákveðið að gera tillögu til forseta Íslands um skipun Kristins Halldórssonar, dómstjóra Héraðsdóms Reykjaness, í embætti dómara við Landsrétt frá 22. september 2022.

Á vef stjórnarráðsins kemur fram að Kristinn Halldórsson hafi lokið embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1997 og öðlast réttindi sem héraðsdómslögmaður árið 2011.

„Að loknu laganámi starfaði hann sem fulltrúi sýslumannsins á Blönduósi en hóf störf sem aðstoðarmaður dómara við Héraðsdóm Norðurlands eystra árið 1999 og síðar sem aðstoðarmaður dómara við Héraðsdóm Vesturlands árið 2004. Á starfstíma sínum sem aðstoðarmaður héraðsdómara var hann jafnframt í nokkur skipti settur sem héraðsdómari við framangreinda dómstóla.

Kristinn var skipaður héraðsdómari og dómstjóri við Héraðsdóm Vestfjarða í september 2007 og því embætti gegndi hann fram til haustsins 2013 er hann hóf störf sem héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjaness. Þar hefur hann verið dómstjóri frá september 2020. Kristinn var settur sem dómari við Landsrétt frá 8. apríl – 30. júní 2022 og hefur að auki nokkrum sinnum tekið sæti sem varadómari við þann dómstól,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×