Kaliuzhnyi féll í hendur Keflvíkinga í vor þegar hann kom að láni frá FK Oleksandriya vegna stríðsins í Úkraínu. Hann er 24 ára miðjumaður og lék sjö leiki fyrir Keflavík.
Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari Keflavíkur, segist í samtali við Fótbolta.net vera að horfa á eftir einum besta leikmanni sem spilað hafi á Íslandi.
„Mér finnst hann hafa siglt svolítið undir radarinn í fjölmiðlum á Íslandi. Þetta er held ég einn besti leikmaður sem hefur spilað á Íslandi, enda er hann byrjunarliðsmaður í sjötta besta liði Úkraínu sem er áttunda besta deild í Evrópu. Ég held að þeir sem hafi séð hann eftir fyrstu leikina geti verið sammála mér í því,“ segir Sigurður Ragnar við Fótbolta.net.
Keflavík freistaði þess að halda leikmanninum: „Við reyndum mjög mikið að halda honum. Hann er samningsbundinn Oleksandriya í þrjú ár í viðbót og eigandinn sagði að Ivan væri til sölu á eina milljón dollara,“ segir Sigurður Ragnar.
Þjálfarinn bætir því við að Keflvíkingar séu nú að leita að liðsstyrk og hafi áhuga á að sækja sér 1-2 leikmenn.