Fótbolti

Eng­land gekk frá Sviss í síðari hálf­leik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Alessia Russo braut ísinn fyrir enska liðið.
Alessia Russo braut ísinn fyrir enska liðið. EPA-EFE/ENNIO LEANZA

England mætti Sviss í síðasta leik liðsins áður en Evrópumót kvenna í knattspyrnu hefst þann 6. júlí næstkomandi. Eftir markalausan fyrri hálfleik setti enska liðið í fimmta gír og skoraði fjögur mörk í síðari hálfleik, lokatölur 4-0 Englandi í vil.

Það gekk ágætlega hjá svissneska liðinu að verjast í fyrri hálfleik en í þeim síðari vandaðist málið. Alessia Russo, framherji Manchester United, kom Englandi yfir snemma leiks í seinni hálfleik og eftir fjórfalda skiptingu á 60. mínútu var tók England öll völd á vellinum.

Georgia Stanway, framherji Man City, tvöfaldaði forystuna af vítapunktinum og Bethany England gekk í raun frá leiknum á 77. mínútu með þriðja marki enska liðsins. Það var svo reynsluboltinn Jill Scott sem skoraði fjórða markið þegar fjórar mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma.

Lokatölur 4-0 og enska liðið mætir með sjálfstraustið í botni á EM á meðan Sviss gæti verið í vandræðum.

England leikur í A-riðli mótsins ásamt Austurríki, Noregi og Norður-Írlandi. Sviss er á sama tíma í C-riðli með Hollandi, Portúgal og Svíþjóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×