„Þetta var gríðarlega erfiður og fjörugur leikur og í rauninni bara fúlt að hafa ekki unnið hann,“ sagði Berglind Björg í samtali við RÚV eftir leik.
Berglind kom íslenska liðinu í 1-0 forystu þegar hún stangaði fyrirgjöf Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur í netið á 50. mínútu, en eins og áður segir hafði Berglind klikkað á vítaspyrnu í fyrri hálfleikþ
„Ég þurfti bara að vinna upp fyrir þetta klúður og það var auðvitað bara mjög gaman að skora. Ég sá að hann var að koma á fjær og ég sá þetta alveg inni.“
„Þetta var bara léttir. Það var geggjað móment að geta fagnað með stuðningsmönnunum og bara algjört æði.“
Berglind vildi þó ekki dvelja of lengi við vítaspyrnuna sem hún klikkaði á og hélt svörum sínum við spurningum um hana stuttum.
„Ég eiginlega veit ekki hvað ég á að segja. Ég þarf bara að gera betur,“ sagði Berglind um vítaspyrnuna.
Berglind fór svo að lokum stuttlega yfir leikinn sjálfan í heild sinni og hún gat verið ánægð með spilamennsku íslenska liðsins.
„Við vorum ógnandi og varnarleikurinn heilt yfir var mjög góður. Við vorum oft að ná að pressa þær hátt uppi og vinna boltann og koma okkur í góðar stöður. Við þurfum bara að nýta færin betur og við erum að fara að fínpússa okkur fyrir næsta leik.“
„Ég vil bara fá enn meiri gæði fram á við og að við náum að klára á markið. Við vorum að ná að koma okkur í góðar stöður en náðum ekki að klára,“ sagði Berglind Björg að lokum.