Grafarvogskirkja greinir frá þessu á Facebook síðu sinni. „Aftur var búið að krota á fallega fánann okkar í tröppum kirkjunnar í morgun. Núna var það textinn LEVITICUS 20:13,“ segir í færslunni. Krotið er tilvitnun í 3. Mósesbók í Bilíunni sem leggur dauðarefsingu við samkynhneigðu kynlífi.
„Í sama kafla eru líka ýmis ákvæði um að lífláta skuli fólk fyrir aðrar sakir, s.s. að ,,bölva föður sínum eða móður", einnig á að lífláta fólk sem sefur hjá einhverjum tengdum sér, t.d. mági eða tengdadóttur og ef karlmaður sefur hjá konu á blæðingum, á að lífláta þau bæði,“ skrifar kirkjan og kýs að fylgja frekar boðskap Jesú Krists sem segi fólki að elska hvert annað.
Skemmdarvargurinn hafði áður krotað „antichrist!“ á fánann en sænsk fjölskylda bauðst til að laga fánann og bjargaði málunum á mettíma. Guðrún Karls Helgudóttir, sóknarprestur í Grafarvogskirkju, telur að bakslag hafi orðið í réttindabaráttu hinsegin fólks.
„Við trúum því að hver einasta manneskja sé elskuð sköpun Guðs sem hefur leyfi til að lifa því lífi sem henni/háni/honum er áskapað. Boðskapur Jesú Krists er í fullu samræmi við mannréttindayfirlýsingar, og við í Grafarvogskirkju stöndum með mannréttindum og berjumst gegn hatri og fordómum,“ segir í lok færslu Grafarvogskirkja á Facebook.