Þetta kemur fram í tilkynningu sem Almannavarnir birtu upp úr sjö. Þar segir að almannavarnir fylgist vel með framvindunni í samvinnu við lögregluna á Suðurnesjum og Veðurstofuna. En í gær settu Almannavarnir á óvissustig Almannavarna vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga.
Í tilkynningunni frá Almannavörnum eru íbúar hvattir til að huga að lausa- og innanstokksmunum sem gætu fallið við jarðskjálfta. Þá er fólk sérstaklega beðið um að huga að því að ekki geti fallið lausamunir á fólk í svefni.
Einnig er minnst á í tilkynningunni að Veðurstofa Íslands hafi vakið athygli á að grjóthrun og skriður gætu farið af stað í brattlendi og því væri gott að sýna aðgát við brattar hlíðar.
Að lokum er bent á að tjón á munum og eignum sé tilkynnt á vefsíðu Náttúruhamfaratrygginga Íslands og ef slys hafi orðið á fólki sé það tilkynnt til 112.