Árneshreppur er sögusviðið í kvikmyndinni Svar við bréfi Helgu sem verður frumsýnd á föstudag. Það var því vel við hæfi að gefa heimamönnum sérstaka forsýningu um helgina.

Fullt var út úr dyrum í félagsheimilinu í Trékyllisvík enda ekki á hverjum degi sem þar eru bíósýningar. Leikstjóri, höfundur og aðalleikarar mættu og sýninguna sem var hin besta upphitun fyrir frumsýningu næstu helgi.

Kvikmyndin, byggð á hinni vinsælu skáldsögu Bergsveins Birgissonar, er í leikstjórn Ásu Helgu Hjörleifsdóttur og í aðalhlutverkum eru þau Þorvaldur Davíð Kristjánsson, Hera Hilmarsdóttir og Aníta Bríem.

Tökur á myndinni fóru fram árið 2020 á Ströndum og því ánægjulegt fyrir Ásu Helgu, Heru, Þorvald og aðstandendur myndarinnar að snúa aftur með fullbúna kvikmynd fyrir heimamenn sem margir hverjir lögðu hönd á plóg með ýmsum hætti á meðan á tökum stóð. Bergsveinn Birgisson, sem búsettur er á þessum slóðum, var einnig mættur.

Svar við bréfi Helgu er frumsýnd þann 2. september næstkomandi og miðasala hafin hér. Í afskettum firði á 5. áratug síðustu aldar verður hinn ungi bóndi Bjarni ástfanginn af Helgu, konunni á næsta bæ. Þau hefja ástríðufullt, forboðið ástarsamband, og brátt fara tilfinningarnar að flæða jafn hömlulaust og hafið sem umkringir þau.

Í spilaranum hér fyrir neðan má sjá stikluna fyrir myndina Svar við bréfi Helgu.