Heimsþingið er stærsti viðburður sem bakarar hafa staðið fyrir hér á landi en innan Alþjóðasamtaka bakara og kökugerðarmanna eru þrjú hundruð þúsund bakarí og kökugerðir í fimm mismunandi heimsálfum. Samtökin voru stofnuð árið 1931 í Ungverjalandi og er þingið nú haldið í fyrsta sinn á Norðurlöndum.
Þátttakendur hafa fundað hér á landi síðustu daga, heimsótt íslensk bakarí og fagskólann í Kópavogi.
Sigurður Már Guðjónsson formaður Landssambands bakarameistara segir viðburðinn stórmerkilegan fyrir íslensku bakara- og kökugerðastéttina.
„Hér eru staddir um sjötíu bakarar frá fimmtán löndum. Og í gær var aðalfundur, stjórnarfundur og landsfundur, þar sem við erum búnir að bera saman tölur um landsneyslu og þess háttar. Svo í kvöld verður galadinner þar sem bakari ársins og konditor ársins verða heiðraðir,“ segir Sigurður Már.
Sigurður Már segir að koma verði í ljós hverjir hljóti verðlaunin þetta árið en viðurkennir þó að Íslendingur muni hreppa titilinn kökugerðamaður ársins í ár.
