Umfjöllun og viðtöl: Selfoss - Grótta 28-27 | Dramatískur sigur heimamanna Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar 15. september 2022 21:30 Vilius Rasimas átti virkilega góðan leik í kvöld. vísir/hulda margrét Selfoss vann dramatískan eins marks sigur er liðið tók á móti Gróttu í Olís-deild karla í kvöld, 28-27. Mikill hraði einkenni fyrri hálfleikinn, og þá sérstaklega fyrstu mínúturnar. Liðin skiptust á að skora í upphafi leiks, en það voru gestirnir í Gróttu sem náðu upp smá forskoti snemma þegar þeir komust í 3-6 eftir um fimm mínútna leik. Selfyssingar vöknuðu þó til lífsins við það og jöfnuðu leikinn og við tók jafn og spennandi hálfleikur af handbolta. Líkt og í fyrstu umferð voru Selfyssingar duglegir við að kasta boltanum frá sér og ef ekki hefði verið fyrir Vilius Rasimas í markinu hefðu heimamenn líklega misst gestina langt fram úr sér. Gestirnir náðu þó upp þriggja marka forskoti á ný undir lok fyrri hálfleiks, en það voru heimamenn sem skoruðu seinasta markið fyrir hlé og staðan því 13-15 þegar liðin gengu til búningsherbergja. Síðari hálfleikur var svo keimlíkur þeim fyrri. Það voru þó heimamenn sem mættu öflugri til leiks og þeir skoruðu fyrstu tvö mörk hálfleiksins og staðan því orðin jöfn á nýjan leik. Liðin skiptust svo á að skora næstu mínútur, en þegar rétt rúmur stundarfjórðungur var til leiksloka náðu strákarnir frá Selfossi tveggja marka forskoti í fyrsta skipti í leiknum í stöðunni 21-19. Gestirnir í Gróttu voru þó ekki á þeim buxunum að fara að missa Selfyssingana of langt fram úr sér og þeir jöfnuðu metin á ný stuttu síðar. Það sem eftir lifði leiks virtist ekkert geta skilið liðin að. Jafnt var á öllum tölum fram á seinustu sekúndur leiksins, en Jakob Stefánsson sá til þess að staðan var jöfn, 27-27, þegar slétt mínúta var til leiksloka. Selfyssingar fóru í sókn og biðu allir í húsinu eftir því að Þórir Ólafsson, þjálfari liðsins, myndi taka leikhlé. Það gerði hann þó ekki og Atli Ævar Ingólfsson kom Selfyssingum yfir þegar um hálf mínúta var eftir. Róbert Gunnarsson, þjálfari Gróttu, tók leikhlé fyrir gestina og stillti upp í eina lokasókn. Hún fór þó ekki betur en svo að Elvar Otri Hjálmarsson fékk dæmt á sig skref örfáum sekúndum fyrir leikslok og Selfyssingar fögnuðu því sigri, 28-27. Af hverju vann Selfoss? Ekki er hægt að segja að Selfoss hafi verið mun betra liðið í leiknum, enda gefa lokatölurnar annað til kynna. Sigurinn hefði getað fallið hvorum megin sem er í kvöld og Selfyssingar héldu haus þegar á reyndi. Hverjir stóðu upp úr? Vilius Rasimas átti virkilega góðan leik í marki Selfyssinga í kvöld. Þegar illa gekk hjá liðinu náði hann iðulega að rífa stemninguna aftur upp með því að verja hraðaupphlaup eða önnur dauðafæri. Samkvæmt minni talningu endaði Rasimas með 17 varin skot sem gerir rétt tæplega 40 prósent hlutfallsmarkvörslu. Hvað gekk illa? Selfyssingum gekk oft á tíðum illa að klára sóknirnar sínar með skoti í fyrri hálfleik og voru í raun heppnir að vera aðeins tveimur mörkum undir í hléi. Sömuleiðis gekk Gróttumönnum oft á tíðum illa að koma boltanum í netið framhjá Rasimas sem gerði það að verkum að forysta þeirra var ekki meiri en tvö mörk þegar gengið var til búningsherbergja. Hvað gerist næst? Bæði lið eiga leik í 3. umferð Olís-deildarinnar næstkomandi fimmtudag. Grótta tekur á móti Stjörnunni klukkan 19:30 og á sama tíma sækja Selfyssingar Hauka heim. Þórir: Ekki fallegasti sigurinn sem hefur unnist á handboltavelli Þórir Ólafsson var eðlilega ánægður með sigurinn í kvöld.UMF Selfoss „Við áttum alveg von á svona leik. Við erum búnir að vera í basli með Gróttu síðustu ár og þeir bara henta okkur ekki,“ sagði Þórir Ólafsson, þjálfari Selfyssinga, í leikslok. „Þannig að við áttum alveg von á einhverju álíka. Jöfnum leik og við fengum það. En ég er auðvitað bara ótrúlega glaður að hafa landað þessu. Þetta var ekki fallegasti sigurinn sem hefur unnist á handboltavelli, en mjög ánægjulegt að ná í tvo punkta.“ Líkt og í 1. umferð voru Selfyssingar að tapa mikið af boltum í fyrri hálfleik í kvöld. Það batnaði þó í síðari hálfleik, en Þórir segist ekki endilega hafa lagt áherslu á það í hálfleiksræðu sinni. „Svo sem ekki mikið. Við erum búnir að tala um þetta eins og eftir síðasta leik. Þessir einföldu boltar sem við erum að tapa og fá á okkur fyrstu bylgju. Það voru held ég tólf í fyrri hálfleik og þrír í seinni, þannig að munurinn þar er að við náum að skila okkur heim og vörnin er að standa þegar við komumst til baka. Svo var Vilius náttúrulega frábær í dag, hvort sem það var á bakvið 6:0 eða 5:1 vörn.“ „Við reyndum bara að fá ákveðna ró í okkar sóknarleik og fara ekki fram úr okkur. Þannig að munurinn á milli hálfleika var kannski þetta - tapaðir boltar.“ Eins og áhugafólk um íslenskan handbolta veit þá urðu þjálfaraskipti hjá Gróttu í sumar. Róbert Gunnarsson tók við af Arnari Daða Arnarssyni og það má sjá mikinn mun á leikskipulagi liðsins milli ára. Grótta keyrir mun hraðar á andstæðinga sína í ár en liðið gerði á seinasta tímabili, en Þórir segir að það hafi verið viðbúið. „Ég held að það séu öll liðin að fara að keyra í þessari deild. Menn eru auðvitað misgóðir í því og liðin gera það mismikið. Við vorum á tímabili að skipta út einum og jafnvel tveimur í vörn og sókn og ég veit að liðin ætla sér að refsa okkur fyrir það. Þetta kom okkur ekkert á óvart og við þurfum bara að skila okkur til baka. Það tókst þegar við náðum að koma boltanum á eða í markið, en um leið og við fórum að henda honum til þeirra þá refsuðu þeir auðvitað grimmt.“ Selfyssingar mæta Haukum í næstu umferð og Þórir sagði að lokum að sigurinn í kvöld væri klárlega eitthvað sem liðið myndi byggja ofan á fyrir þann leik. „Þetta eru kannski einfaldir hlutir sem við þurfum að bæta. Við erum farnir að finna aðeins öryggi og flæði þannig við reynum að taka seinni hálfleikinn með okkur í næsta leik,“ sagði Þórir að lokum. Olís-deild karla UMF Selfoss Grótta
Selfoss vann dramatískan eins marks sigur er liðið tók á móti Gróttu í Olís-deild karla í kvöld, 28-27. Mikill hraði einkenni fyrri hálfleikinn, og þá sérstaklega fyrstu mínúturnar. Liðin skiptust á að skora í upphafi leiks, en það voru gestirnir í Gróttu sem náðu upp smá forskoti snemma þegar þeir komust í 3-6 eftir um fimm mínútna leik. Selfyssingar vöknuðu þó til lífsins við það og jöfnuðu leikinn og við tók jafn og spennandi hálfleikur af handbolta. Líkt og í fyrstu umferð voru Selfyssingar duglegir við að kasta boltanum frá sér og ef ekki hefði verið fyrir Vilius Rasimas í markinu hefðu heimamenn líklega misst gestina langt fram úr sér. Gestirnir náðu þó upp þriggja marka forskoti á ný undir lok fyrri hálfleiks, en það voru heimamenn sem skoruðu seinasta markið fyrir hlé og staðan því 13-15 þegar liðin gengu til búningsherbergja. Síðari hálfleikur var svo keimlíkur þeim fyrri. Það voru þó heimamenn sem mættu öflugri til leiks og þeir skoruðu fyrstu tvö mörk hálfleiksins og staðan því orðin jöfn á nýjan leik. Liðin skiptust svo á að skora næstu mínútur, en þegar rétt rúmur stundarfjórðungur var til leiksloka náðu strákarnir frá Selfossi tveggja marka forskoti í fyrsta skipti í leiknum í stöðunni 21-19. Gestirnir í Gróttu voru þó ekki á þeim buxunum að fara að missa Selfyssingana of langt fram úr sér og þeir jöfnuðu metin á ný stuttu síðar. Það sem eftir lifði leiks virtist ekkert geta skilið liðin að. Jafnt var á öllum tölum fram á seinustu sekúndur leiksins, en Jakob Stefánsson sá til þess að staðan var jöfn, 27-27, þegar slétt mínúta var til leiksloka. Selfyssingar fóru í sókn og biðu allir í húsinu eftir því að Þórir Ólafsson, þjálfari liðsins, myndi taka leikhlé. Það gerði hann þó ekki og Atli Ævar Ingólfsson kom Selfyssingum yfir þegar um hálf mínúta var eftir. Róbert Gunnarsson, þjálfari Gróttu, tók leikhlé fyrir gestina og stillti upp í eina lokasókn. Hún fór þó ekki betur en svo að Elvar Otri Hjálmarsson fékk dæmt á sig skref örfáum sekúndum fyrir leikslok og Selfyssingar fögnuðu því sigri, 28-27. Af hverju vann Selfoss? Ekki er hægt að segja að Selfoss hafi verið mun betra liðið í leiknum, enda gefa lokatölurnar annað til kynna. Sigurinn hefði getað fallið hvorum megin sem er í kvöld og Selfyssingar héldu haus þegar á reyndi. Hverjir stóðu upp úr? Vilius Rasimas átti virkilega góðan leik í marki Selfyssinga í kvöld. Þegar illa gekk hjá liðinu náði hann iðulega að rífa stemninguna aftur upp með því að verja hraðaupphlaup eða önnur dauðafæri. Samkvæmt minni talningu endaði Rasimas með 17 varin skot sem gerir rétt tæplega 40 prósent hlutfallsmarkvörslu. Hvað gekk illa? Selfyssingum gekk oft á tíðum illa að klára sóknirnar sínar með skoti í fyrri hálfleik og voru í raun heppnir að vera aðeins tveimur mörkum undir í hléi. Sömuleiðis gekk Gróttumönnum oft á tíðum illa að koma boltanum í netið framhjá Rasimas sem gerði það að verkum að forysta þeirra var ekki meiri en tvö mörk þegar gengið var til búningsherbergja. Hvað gerist næst? Bæði lið eiga leik í 3. umferð Olís-deildarinnar næstkomandi fimmtudag. Grótta tekur á móti Stjörnunni klukkan 19:30 og á sama tíma sækja Selfyssingar Hauka heim. Þórir: Ekki fallegasti sigurinn sem hefur unnist á handboltavelli Þórir Ólafsson var eðlilega ánægður með sigurinn í kvöld.UMF Selfoss „Við áttum alveg von á svona leik. Við erum búnir að vera í basli með Gróttu síðustu ár og þeir bara henta okkur ekki,“ sagði Þórir Ólafsson, þjálfari Selfyssinga, í leikslok. „Þannig að við áttum alveg von á einhverju álíka. Jöfnum leik og við fengum það. En ég er auðvitað bara ótrúlega glaður að hafa landað þessu. Þetta var ekki fallegasti sigurinn sem hefur unnist á handboltavelli, en mjög ánægjulegt að ná í tvo punkta.“ Líkt og í 1. umferð voru Selfyssingar að tapa mikið af boltum í fyrri hálfleik í kvöld. Það batnaði þó í síðari hálfleik, en Þórir segist ekki endilega hafa lagt áherslu á það í hálfleiksræðu sinni. „Svo sem ekki mikið. Við erum búnir að tala um þetta eins og eftir síðasta leik. Þessir einföldu boltar sem við erum að tapa og fá á okkur fyrstu bylgju. Það voru held ég tólf í fyrri hálfleik og þrír í seinni, þannig að munurinn þar er að við náum að skila okkur heim og vörnin er að standa þegar við komumst til baka. Svo var Vilius náttúrulega frábær í dag, hvort sem það var á bakvið 6:0 eða 5:1 vörn.“ „Við reyndum bara að fá ákveðna ró í okkar sóknarleik og fara ekki fram úr okkur. Þannig að munurinn á milli hálfleika var kannski þetta - tapaðir boltar.“ Eins og áhugafólk um íslenskan handbolta veit þá urðu þjálfaraskipti hjá Gróttu í sumar. Róbert Gunnarsson tók við af Arnari Daða Arnarssyni og það má sjá mikinn mun á leikskipulagi liðsins milli ára. Grótta keyrir mun hraðar á andstæðinga sína í ár en liðið gerði á seinasta tímabili, en Þórir segir að það hafi verið viðbúið. „Ég held að það séu öll liðin að fara að keyra í þessari deild. Menn eru auðvitað misgóðir í því og liðin gera það mismikið. Við vorum á tímabili að skipta út einum og jafnvel tveimur í vörn og sókn og ég veit að liðin ætla sér að refsa okkur fyrir það. Þetta kom okkur ekkert á óvart og við þurfum bara að skila okkur til baka. Það tókst þegar við náðum að koma boltanum á eða í markið, en um leið og við fórum að henda honum til þeirra þá refsuðu þeir auðvitað grimmt.“ Selfyssingar mæta Haukum í næstu umferð og Þórir sagði að lokum að sigurinn í kvöld væri klárlega eitthvað sem liðið myndi byggja ofan á fyrir þann leik. „Þetta eru kannski einfaldir hlutir sem við þurfum að bæta. Við erum farnir að finna aðeins öryggi og flæði þannig við reynum að taka seinni hálfleikinn með okkur í næsta leik,“ sagði Þórir að lokum.