Agla María missti af landsleiknum mikilvæga gegn Hollandi fyrr í þessum mánuði, vegna meiðsla, og framan af sumri fékk hún lítið að spila með liði sínu Häcken í Svíþjóð. Frá því að hún kom að láni til Blika í lok júlí hefur hún núna náð að spila sex leiki og skorað í þeim fjögur mörk.
„Þegar hún er á deginum sínum þá er ósköp fátt sem stoppar hana. Hún er frábær í fótbolta og hefur haft rosalega gott af því að fá nokkra leiki þar sem hún hefur fengið að spila í 90 mínútur,“ sagði Harpa Þorsteinsdóttir, ánægð með að sjá Öglu Maríu geta látið ljós sitt skína á nýjan leik:
„Auðvitað hefur það áhrif á sóknarmann að vera ekki í sínu „elementi“ og hún er þannig leikmaður að hún þarf pínu að vera að spila og með boltann í löppunum. Maður sér að hún er að finna sig núna,“ sagði Harpa.
Ísland leikur umspilsleik 11. október við sigurliðið úr leik Portúgals og Belgíu, um farseðilinn á HM í Eyjaálfu næsta sumar. Það eru því góðar fréttir fyrir íslenska landsliðið að Agla María sé komin í gang:
„Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt, líka í ljósi þess hvernig síðasti leikur spilaðist. Við vorum í vandræðum á köntunum og náðum ekki að leysa vel kantsvæðin, sérstaklega hægra megin. Hún er klárlega styrkur fyrir landsliðið. Að geta verið með hana í þessu formi er frábært,“ sagði Harpa.
„Manni finnst hún vera að eflast með hverjum leik og maður sé í öllum sóknaraðgerðum Breiðabliks hvernig allt fór í gegnum hana,“ sagði Lilja Dögg Valþórsdóttir.