Formúla 1

Formúla 1 fjölgar keppnum og þær hafa aldrei verið fleiri en verða á næsta ári

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Tímabilið í Formúlu 1 á næsta ári verður það lengsta í sögu íþróttarinnar.
Tímabilið í Formúlu 1 á næsta ári verður það lengsta í sögu íþróttarinnar. Eric Alonso/Getty Images

Forráðamenn Formúlu 1 staðfestu í dag að á næsta ári verði 24 keppnir á tímabilinu og að aldrei hafi fleiri keppnum verið komið fyrir á einu tímabili í íþróttinni.

Keppnunum fjölgar því um tvær á milli ára, en á yfirstandandi tímabili keppa liðin og ökumennirnir í 22 skipti. Franski kappaksturinn dettur þó út á næsta ári en í staðin verður keppt í Katar og Kína á ný, ásamt því að Las Vegas-kappaksturinn kemur nýr inn.

Þetta lengsta tímabil íþróttarinnar frá upphafi hefst í Barein þann 5. mars og lýkur í Abú Dabí tæpum níu mánuðum síðar, þann 26. nóvember.

Las Vegas-kappaksturinn verður sá næst seinasti í röðinni, haldinn þann 18. nóvember. Kínverski kappaksturinn verður hins vegar haldinn þann 16. apríl, en hann hefur ekki verið haldinn seinustu þrjú ár vegna stöðu kórónuveirufaraldursins þar í landi.

Þá eru einnig enn nokkrar efasemdir um það hvort yfir höfuð verði hægt að halda kínverska kappaksturinn á næsta ári þar sem útgöngubann er sumstaðar enn í gildi vegna kórónuveirufaraldursins. Forráðamenn Formúlu 1 bíða því enn eftir svari frá kínverkum yfirvölum um það hvernig tekið verði á jákvæðum kórónuveiruprófum áður en kappaksturinn verður endanlega staðfestur.

Forráðamenn Formúlu 1 hafa þó ekki gefið neitt út um það hvaða helgar hinar svokölluðu sprettkeppnir muni fara fram. Fyrir þá sem ekki þekkja til þeirra eru sprettkeppnirnar styttri keppnir, haldnar degi fyrir keppnina sjálfa, og gefa ökumönnum stig ásamt því að ákvarða rásröð í keppninni sjálfri. 

Forráðamenn Formúlunnar og liðin innan hennar samþykktu í vor að fjölga sprettkeppnum úr þrem í sex á næsta tímabili, en Mohammed ben Sulayem, forseti FIA (Alþjóða akstursíþróttasambandið) hefur hingað til komið í veg fyrir þá fjölgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×