Damian Willoughby var ráðinn til Chelsea í ágúst en hafði í aðdraganda þess sent Catalinu Kim fjölda óviðeigandi skilaboða af kynferðislegum toga. Kim vinnur fyrir fyrirtæki sem aðstoðaði við kaup Todd Boehly, eiganda Chelsea, á félaginu í sumar.
„Chelsea staðfestir að félagið hefur slitið starfssamningi við Damian Willoughby,“ er haft eftir talsmanni félagsins.
„Gögn sýna fram á óviðeigandi skilaboð sem Willoughby sendi, áður en hann tók til starfa hjá félaginu,“
Slík hegðun er algjörlega í andstæðu við þær vinnuaðstæður og þá vinnustaðamenningu sem nýir eigendur félagsins vilja standa fyrir,“ segir talsmaður Chelsea enn fremur.
Willoughby var að taka til starfa hjá Chelsea í annað sinn en hann vann hjá félaginu frá 2007 til 2010. Hann hefur einnig unnið fyrir töluvleikjaframleiðandann EA Sports og Manchester City. Hann var rekinn eftir minna en mánuð í starfi.
Minnihluti málanna yfirhöfuð tilkynnt
Samtök kvenna í fótbolta í Bretlandi (e. Women in Football) hafa sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins og munu þau eiga í samskiptum við Kim, til að veita stuðning og aðstoð. Samtökin segja málið varpa ljósi á vandamál sem sé töluvert stærra en fólk geri sér grein fyrir.
„Mál Damian Willoughby minnir okkur á að komur í fótboltageiranum þurfa að þola kynferðislega áreitni og mismunun daglega. Tveir þriðju meðlima samtakanna hafa orðið vitni að kynjamismunun í vinnunni. Stór meirihluti mála kemst aldrei í fyrirsagnirnar. Aðeins tólf prósent þeirra eru yfirhöfuð tilkynnt til vinnuveitenda,“ segir í yfirlýsingu samtakanna.