Handbolti

„Tvær lélegar sóknir hjá sitthvoru liðinu sem skilaði jafntefli“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Einar Sverrisson skoraði tíu mörk fyrir Selfyssinga í kvöld og braut um leið þúsund marka múrinn fyrir félagið.
Einar Sverrisson skoraði tíu mörk fyrir Selfyssinga í kvöld og braut um leið þúsund marka múrinn fyrir félagið. mynd/selfoss

Einar Sverrisson, leikmaður Selfoss, átti stórleik þegar liðið gerði jafntefli gegn ÍBV í Olís-deild karla í handbolta í kvöld, 31-31. Einar skoraði tíu mörk fyrir Selfyssinga og hans fjórða mark í leiknum var hans þúsundasta fyrir félagið í opinberum keppnisleikjum.

„Eigum við ekki að segja að þetta séu blendnar tilfinningar? Ég er gríðarlega ánægður að vera kominn í þessi þúsund mörk. Það var ákveðið markmið fyrir veturinn þó að það hafi svo sem legið ljóst fyrir að ef maður hefði getað eitthvað þá færi maður alltaf í þúsund. En það er gaman að gera það hér og gaman að fá viðurkenningu fyrir það,“ sagði Einar eftir jafntefli kvöldsins.

„En við vorum aðeins klaufar að klára ekki leikinn. Það var það sem var aðalatriðið í kvöld, að reyna að taka tvö stig. En þetta var ekki alveg nógu vel ígrunduð lokasókn hjá okkur og svo var það sama hjá þeim. Tvær lélegar sóknir hjá sitthvoru liðinu sem skilaði jafntefli.“

Leikurinn var gríðarlega jafn í kvöld og munurinn á liðunum varð aldrei meiri en tvö mörk. Einar segir það nokkuð viðbúið þegar þessi lið mætist að leikirnir verði jafnir, en hann þekkir það vel að spila með ÍBV.

„Ég þekki náttúrulega vel til Vestmannaeyingana, allavega þeirra fáu sem eru eftir síðan ég var þarna. Mér líkar alltaf vel að spila við þá og þetta eru alltaf svona skemmtilegri leikir fyrir mig og kannski líka fyrir fólkið. Suðurlandsslagur og ég held að þetta hafi verið áhugaverður leikur að horfa á. Þetta var góð skemmtun en því miður hefði ég viljað taka tvö stig.“

Að lokum var Einar spurður að því hvort að hann sæi fyrir sér að bæta við þúsund mörkum í viðbót, enda enn aðeins þrítugur að aldri og nóg eftir af ferlinum. Hann var þó harður á því að það myndi ekki gerast.

„Nei, það held ég ekki,“ sagði Einar og hló.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×