Uppfært klukkan 18.30: Rafmagn er alls staðar aftur komið á. Orsökin var bilun í háspennustreng að sögn Veitna. Upphafleg frétt fylgir.
Fólk í verslunarhugleiðingum á Granda kom að lokuðum dyrum og þarf að leita annað þar sem allt er rafmagnslaust á Grandanum. Verslanir eru flestar hverjar lokaðar vegna rafmagnsleysisins.
Breki Logason, upplýsingafulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur, sagði í samtali við fréttastofu rétt upp úr klukkan 17 að spennustöð hafi slegið út og mannskapur frá Veitum væri á leiðinni á staðinn. Viðgerð stendur nú yfir og greindu Veitur frá því klukkan 17:46 að búið væri að finna bilunina sem er á aðalstreng.
„Ákveðin svæði eru að detta inn og er rafmagnsleysið nú einungis bundið við hluta miðbæjar. Vonast er til þess að það detti inn fljótlega,“ segir á vef Veitna.
Töluvert hefur verið um rafmagnsleysi undanfarnar vikur í vesturhluta borgarinnar. Rafmagnslaust varð um tíma fyrir tveimur vikum og svo aftur í Skerjafirðinum í þessari viku.
Miðað við upphaflega tilkynningu frá Veitum mátti reikna með að rafmagnsleysið myndi fram á kvöld. Þar er vísað til bleika svæðisins á myndinni að neðan. Fram kom að rafmagnslaust verði frá 16:30 til 23:59.

Meðfylgjandi myndskeið var tekið úti á Granda fyrir skemmstu, rétt eftir að rafmagnsleysið skall á. Þar var starfsfólk verslana í óðaönn að loka þeim eftir að ljóst var að rafmagnsleysið myndi vara í nokkra stund.
Rafmagnstruflanirnar virðast hafa misjafnlega mikil áhrif á starfsemi verslana og veitingastaða í miðborginni en á meðan viðskiptavinir 10/11 í Austurstræti koma að lokuðum dyrum á fólk greiðan aðgang að verslunum beint á móti. Skammt frá glíma veitingastaðir í Tryggvagötu, á borð við Osushi og The Hungry Chef, við hamlandi rafmagnsleysi.
Úr tilkynningu frá Veitum
Vegna bilunar er rafmagnslaust á Granda, í Vesturbænum og í miðbænum fös. 07. október á meðan viðgerð stendur.
Við bendum þér á að slökkva á þeim rafmagnstækjum, sem ekki slökkva á sér sjálf og geta valdið tjóni þegar rafmagn kemur á að nýju. Það á sérstaklega við um eldavélar, mínútugrill og fleiri hitunartæki. Eins ráðleggjum við þér að slökkva á viðkvæmum tækjum á borð við sjónvörp.
Gættu þess að hafa kæli- og frystiskápa ekki opna lengur en þörf krefur.
Starfsfólk Veitna biðst velvirðingar á óþægindum vegna þessa.

Fréttin hefur verið uppfærð.