Fótbolti

Skoraði mark sem gæti kostað hann HM í Katar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paulo Dybala fann vel til strax eftir skotið.
Paulo Dybala fann vel til strax eftir skotið. EPA-EFE/FABIO FRUSTACI

Það styttist óðum í heimsmeistaramótið í Katar og þeir leikmenn sem ætla að spila þar mega alls ekki meiðast þegar svona stutt er í mót.

Einn af þeim sem ætlaði sér að vera með á heimsmeistaramótinu var argentínski framherjinn Paulo Dybala en nú lítur út fyrir að mótið sé í hættu hjá honum.

Dybala tókst nefnilega að meiða sig þegar hann tók vítaspyrnu og skoraði fyrir Roma í ítölsku deildinni um helgina.

Dybala greip strax um lærið eftir skotið og gat ekki haldið leik áfram.

Þessi 28 ára framherji hefur skorað 7 mörk í 11 leikjum með Roma síðan að hann til félagsins frá Juventus í sumar.

Knattspyrnustjóri hans, Jose Mourinho, var ekki bjartsýnn þegar hann ræddi við fjölmiðla.

„Ég myndi segja að þetta líti illa út, meira að segja mjög illa út. Ég er ekki læknir en út frá minni reynslu og eftir að hafa talað við Paulo þá er ólíklegt að við sjáum meira af honum á þessu ári,“ sagði Jose Mourinho við DAZN.

Heimsmeistaramótið í Katar hefst 20. nóvember næstkomandi. Þetta er síðasta HM hjá Lionel Messi og miklar væntingar eru gerðar til þess í Argentínu að þessi frábæri leikmaður verði loksins heimsmeistari.

Argentínska liðið hefur ekki tapað leik síðan í júlí 2019 og Dybala skoraði einmitt eitt af mörkum liðsins í sigri á Evrópumeisturum Ítala í Finalissima leiknum á Wembley í sumar.

Dybala er þó ekki byrjunarliðsmaður hjá Argentínumaður en er góður kostur til að koma inn af bekknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×