Innlent

Auka framlög til mannúðarmála um 200 milljónir

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. 
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.  Vísir/Vilhelm

Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að auka framlög sín til mannúðarmála um 200 milljónir króna en viðbótar framlögin renna til tveggja stofnana Sameinuð þjóðanna. Utanríkisráðherra segir mikilvægt að bregðast við alvarlegu ástandi þar sem fleiri hafa aldrei verið á flótta og hundruð milljónir manna þurfi á mannúðaraðstoð að halda í ár. 

Stofnanirnar sem um ræðir eru Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna en hundrað milljónir renna til hvorrar stofnunar.

Sameinuðu þjóðirnar áætla er að rúmlega þrjú hundruð milljónir manna þurfi á mannúðaraðstoð að halda í ár og hefur þeim fjölgað um tæpar fjörutíu milljónir það sem af er ári. Þá eru yfir hundrað milljónir manna á flótta í heiminum og hafa þeir aldrei verið fleiri.

„Ástand heimsmála er viðkvæmt og það þjónar bæði hagsmunum okkar Íslendinga og er siðferðisleg skylda okkar að leggja af mörkum til þess að draga úr þeirri neyð sem ríkir víða um heim og getur orðið kveikjan að enn meiri hörmungum,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra í tilkynningu um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×